131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Staða íslensks skipasmíðaiðnaðar.

[14:03]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég hlýt að lýsa ánægju með þann mikla áhuga á íslenskum skipasmíðaiðnaði sem fram kom hjá hv. þingmönnum og skiptir vissulega miklu máli. En auðvitað fór það eins og mig grunaði að umræðan mundi snúast meira og minna um viðgerðir á Tý og Ægi þó hún hafi ekki átt að vera um það afmarkaða málefni þar sem það heyrir ekki undir mig sem iðnaðarráðherra og ég hef margtekið fram að ég komi ekki að þeirri ákvörðun. Ég geri mér fulla grein fyrir að hv. þingmenn Vinstri grænna hafa einhverja sérstaka ánægju af því að skamma mig og ég kvarta ekkert undan því, ég tel mig alveg fullbúna til að takast á við þá í ræðustóli.

Fyrst við erum farin að tala um það mál tel ég að við verðum að sjá til þess að svona lagað gerist ekki aftur. Aðalatriðið í þeim tillögum sem nú liggja fyrir og mér voru afhentar fyrir örfáum vikum af hálfu nefndar sem ég skipaði til að fara yfir það hver samkeppnisstaða íslensks skipasmíðaiðnaðar væri er að hækka endurgreiðsluhlutfallið úr 4,5% upp í 6% af aðstöðugjaldi. Það skiptir verulega miklu máli. Það ánægjulega í þessu er að við sjáum ekki betur en íslenskur skipasmíðaiðnaður sé alveg u.þ.b. samkeppnishæfur, en fylgjast þarf með því sem gerist núna í tengslum við hina nýju ákvörðun innan Evrópusambandsins að hafa heimild til að styrkja verulega það starf sem getur kallast þróunarstarf í tengslum við nýsmíðar vegna þess að hættan er sú að svigrúm skapist og möguleikar á að misnota það ákvæði.

Hæstv. forseti. Í næstu viku verður áfram talað um þetta mikilvæga mál, (Forseti hringir.) en ég þakka fyrir umræðuna.