131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[14:33]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég er á því að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir sé haldin ákveðinni blekkingu rétt eins og margir sjálfstæðismenn, en þeir virðast lifa í þeirri blekkingu að Sjálfstæðisflokkurinn sé flokkur lítilla útgjalda hins opinbera. Það er alrangt. Í þessari umræðu eru þeir sífellt að benda á stjórnarandstöðuflokkana eins og Vinstri græna rétt áðan. Skoði maður upplýsingar sem koma frá hæstv. fjármálaráðherra kemur fram að það hefur orðið gríðarlegur vöxtur á hlut hins opinbera sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, heil 10%, og þetta hlutfall er orðið nálægt helmingur. Það er áhyggjuefni og sérstaklega hlýtur það að vera áhyggjuefni fyrir stjórnmálaflokk sem trúir því eða heldur því a.m.k. stundum fram að hann sé flokkur lítilla útgjalda hins opinbera. Það er áhyggjuefni, sérstaklega fyrir okkur landsbyggðarþingmenn, að þessi vöxtur fer að miklu leyti fram á höfuðborgarsvæðinu og fróðlegt væri að fá að heyra hjá hv. þingmanni hverju það sætir.