131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

3. fsp.

[15:25]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Þegar tekin var ákvörðun um að fresta framkvæmdum við Héðinsfjarðargöng var jafnframt tilkynnt um að það verk yrði boðið út haustið 2005 og framkvæmdir hæfust svo á árinu 2006. Það á því ekkert að koma hv. þingmanni á óvart um þessi efni. Tilkynnt var sumarið 2003 hvernig að þessu yrði staðið og því ekki um neina nýja hluti að ræða hvað þetta varðar.

Við gerðum ráð fyrir því í langtímaáætlun um ríkisfjármál að hægt yrði á framkvæmdum og dregið úr framlögum til samgöngumála á þessu og næsta ári. Engu að síður eru áformin um framkvæmdir og ákvarðanir í fullkomnu samræmi við það sem rætt var m.a. við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið í ár og þau áform sem eru um ríkisfjármálin á næsta ári.

Hvað varðar gjaldtöku vegna einstakra framkvæmda, eins og jarðganga, liggur ekkert fyrir um það. Greint hefur verið frá því að starfandi var nefnd sem gerði tillögur um gjaldtöku og einkaframkvæmd í samgöngumálum. Þær tillögur liggja fyrir, það hefur ekki verið tekin afstaða til þeirra en væntanlega verður fjallað um þær í tengslum við afgreiðslu samgönguáætlunar þegar þar að kemur.

Hvað varðar svigrúm til framkvæmda í Norðvesturkjördæmi sérstaklega, sem ég gleðst yfir að hv. þingmaður skuli hafa áhuga á, hefur það svigrúm verið býsna gott á undanförnum árum og það verður nýtt áfram.