131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

Útboðsreglur ríkisins.

[16:18]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Það er kannski ekki miklu við þetta mál að bæta. Auðvitað er eins og ég sagði áðan mjög miður að þetta útboð skyldi hafa farið á þann veg sem það gerði.

Það er rétt sem menn hafa sagt hér, engar reglur voru brotnar í þessu máli. Það var farið í einu og öllu eftir útboðsreglunum sem hér gilda og þarna var byggt upp ákveðið valmódel, sem svo er kallað, þar sem verðinu er gefið ákveðið vægi, ISO-vottuninni er gefið ákveðið vægi, 20%, og síðan líka reynslu af sambærilegum verkum, 10%. Vegið saman er niðurstaðan sú að pólska stöðin fær langhæsta einkunn og reyndar það háa að jafnvel þó að ISO-vottuninni væri sleppt væri niðurstaðan sú sama. Þar munar þeim milljónum í verðinu sjálfu sem menn hafa gert að umtalsefni.

Ég tel rétt að fá þau atriði upplýst sem ég gat um í fyrri ræðu minni upp á framtíðina að gera. Það verður ekki snúið til baka í þessu máli, það er búið að gera bindandi samning og honum verður ekki rift nema gegn greiðslu hárra skaðabóta. Það liggur alveg fyrir. Upp á framtíðina að gera er nauðsynlegt að við komumst til botns í því hvort við erum kaþólskari en páfinn, eins og hv. þm. Hjálmar Árnason orðaði það, hvort við nýtum okkur ekki allt það svigrúm sem reglurnar gefa í þágu okkar eigin atvinnuvega og hvort við setjum óþarfakvaðir á okkar eigin fyrirtæki sem aðrar þjóðir gera ekki. Þar er auðvitað stærsta málið þessi ISO-vottun og ef í ljós kemur að sú krafa er ómálefnaleg með einhverjum hætti, eins og hæstv. dómsmálaráðherra sagði hér um daginn, eiga menn auðvitað ákveðinn kærurétt sem þeir geta nýtt sér en sem ekki hefur komið fram að menn hyggist gera. Þannig stendur nú þetta, virðulegi forseti.