131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Stjórn fiskveiða.

362. mál
[14:42]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Hv. formaður sjávarútvegsnefndar fór yfir nefndarálit nefndarinnar vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum nr. 38 frá 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Eins og fram kom í máli hv. framsögumanns erum við fulltrúar Samfylkingarinnar á nefndarálitinu með fyrirvara og ætla ég að gera grein fyrir því í hverju þeir fyrirvarar felast.

Það er rétt sem fram kemur í nefndarálitinu að hér er að mestu leyti verið að breyta þremur atriðum. Í fyrsta lagi eru breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem felast einkum í lagfæringum á lagatexta vegna niðurlagningar á sóknardagakerfinu. Í öðru lagi er lagt til ákvæði um heimild skipstjóra samanber bráðabirgðaákvæði í lögum til að ákveða að hluti af afla fiskiskips teljist ekki til aflamarks og í þriðja lagi er lagt til að heimild sem ráðherra hefur til að úthluta aflaheimild til tilrauna með áframeldi á þorski renni ekki út núna eins og hún á að gera, heldur verði hún framlengd til fiskveiðiársins 2009–2010.

Um þetta er enginn ágreiningur í nefndinni, en við bentum á það á nefndarfundum og við umfjöllun málsins að rétt væri að taka fleiri atriði í lögunum til skoðunar fyrst verið væri á annað borð að taka þau upp og fara í hreingerningar eins og fram kom í máli hv. framsögumanns og einnig í greinargerð með frumvarpinu að hér væri að mestu leyti um hreingerningu á lögunum að ræða.

Það vill þannig til að búið er að breyta lögunum um stjórn fiskveiða ansi oft frá því að þau voru sett. Ég tók saman hvaða breytingar væri búið að gera á lögunum frá 1992 og þá kemur í ljós að sú breyting sem hér er verið að leggja til er breyting nr. 34. Það er því búið að breyta lögunum 34 sinnum á 13 árum um stjórn fiskveiða. Talsmenn kvótakerfisins hafa komið hver á fætur öðrum og sagt að það sem mestu máli skipti í greininni sé stöðugleikinn og þeir séu sífellt að tryggja stöðugleika, en þegar málið er skoðað betur kemur í ljós að oftar en tvisvar að meðaltali á hverju ári frá því að lögin voru sett hefur þeim verið breytt. Þannig er búið að vera að klastra í kerfið alveg frá upphafi, leyfi ég mér að segja, og aldrei tekið á þeim vanda sem við blasir í kerfinu. Verið er að gera við götin á kerfinu með eins litlum bótum og hægt er og ég held að menn þurfi að taka sér tak einhvern tíma á næstunni fyrst þeir eru ekki tilbúnir til að gera það núna og fara í stærri hreingerningar á lögunum en verið er að gera nú.

Við nefndum nokkur atriði í sjávarútvegsnefnd sem við vildum láta skoða betur og fengum lítinn tíma til að ræða þau eða skoða. Það var alveg ljóst að meiri hluti nefndarinnar hafði ekki mikinn áhuga á að sökkva sér niður í önnur atriði en akkúrat þessi fáu atriði sem komu fram í frumvarpi frá ráðherra.

Ég sakna þess reyndar stundum í þingnefndum að þær leyfi sér að taka meira frumkvæði en þær gera yfirleitt. Þegar verið er að opna fyrir breytingu á ákveðnum lögum ættu menn að leyfa sér að skoða með opnum huga hvort ástæða sé til að breyta einhverjum öðrum atriðum en akkúrat þeim sem ráðherrann leggur til. Oft geta menn lært af reynslunni og eiga þá að gera það og breyta ákvæðum í lögum sem auðsjáanlega hafa ekki gengið upp eða skilað tilgangi sínum.

Eitt sem við óskuðum eftir að yrði skoðað þegar verið væri að hreingera þessi lög eða breyta þeim var spurningin um hvort rétt væri núna að skoða möguleikann á því að breyta fiskveiðiárinu þannig að það væri ekki frá 1. september til 31. ágúst, heldur yrði fiskveiðiárið það sama og almanaksárið. Hugmyndin á bak við það var að stór fyrirtæki í rekstri gera upp, flest hver, öll jafnvel, miðað við almanaksárið og því væri í raun uppgjör þessara fyrirtækja mun hreinna ef kvótaárið væri það sama og almanaksárið. Flestir reyndu að vera búnir að nýta kvóta sinn þá í lok kvótaársins og það væri þá ekki verið að meta stöðu aflaheimilda eins og þær standa um áramót inn í bækur þessara félaga, heldur væru það raunverulegar tekjur vegna heimildanna. Hvort sem þær hefðu verið leigðar frá fyrirtækinu eða fyrirtækið fiskað þessar heimildir sjálft væri það komið í ljós og menn gætu fært það í uppgjör fyrirtækisins.

Við fengum þau svör í sjávarútvegsráðuneytinu að þetta hefði einhvern tíma verið skoðað. Þar sagði, með leyfi forseta:

„Hugmynd kom fram um þetta fyrir tveimur til þremur árum síðan, að miða við almanaksár. Henni var þá hafnað.“

Síðan segir:

„Ef gera ætti slíkar breytingar þyrfti að fara í gegnum ítarlega úttekt og taka tillit til ýmissa flókinna álitamála, auk þess sem breyta þyrfti mörgum greinum laganna.“

Það kemur okkur náttúrlega ekkert á óvart að ef menn ætluðu að breyta þessu þyrfti að breyta mörgum greinum laganna en ekkert í þessu svari frá embættismönnum ráðuneytisins geymir í sér nein rök fyrir því að ekki væri rétt að skoða þetta og sjá hvert við kæmumst með því.

Við vildum einnig skoða framkvæmd ákvæðis um línuívilnun í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur. Í dag er ekki um línuívilnun að ræða nema línan sé beitt í landi og að bátur komi í sömu höfn og hann tók línuna innan 24 tíma frá því að róður hófst. Þetta ákvæði um sömu höfn er eitthvað sem virðist vera mjög stíft túlkunaratriði af hálfu yfirvalda því að jafnvel þó að bátur komi í aðra höfn í sama sveitarfélagi gildir það ekki. Nú hafa sveitarfélög verið sameinuð í stórum stíl og það eru kannski margar hafnir innan sama sveitarfélags í einu hafnasamlagi eða undir einni hafnarstjórn. Bátur sem fer út á Reyðarfirði og kemur í land á Eskifirði nýtur þá ekki línuívilnunar miðað við hörðustu túlkun þessa ákvæðis. Sama með bát sem fer á sjó og tekur línuna í Grindavík og leggur út af Garðskaga, ef veður versnar og hann vill komast í land í Sandgerði gerist það ekki nema hann sé tilbúinn til þess að missa þá línuívilnun sem hann annars fengi.

Það var skoðun okkar í minni hlutanum að þetta væru allt of þröngar túlkanir. Við vildum að menn skoðuðu það að skýra lagatextann þannig að það væri nægjanlegt að stunda dagróðra, það væri nægjanlegt að koma í höfn innan 24 tíma frá því að lagt var úr annarri höfn Við vildum líka skoða betur en gert hefur verið þann möguleika að þeir bátar sem beita með svokallaðri beitningatrekt um borð og stokka línuna upp í landi mundu njóta þessarar línuívilnunar líka. Öllum er orðið ljóst sem skoða framkvæmd þessa ákvæðis, hvort sem menn voru með línuívilnun á sínum tíma eða ekki, að það er algjör mismunun að aðeins þeir bátar sem stinga beitunni á krókinn í landi fái að nýta línuívilnunina.

Það var ekki tími til að skoða þetta af neinu viti og ekki náðist í gegnum meiri hlutann að skoða slíkar breytingar á lögunum.

Eitt sem nefnt var og við vildum skoða aðeins betur var hvort rétt væri að leyfa gildruveiðar í krókaaflamarki. Litlu krókabátarnir í þessu krókaaflamarki mega einungis veiða á línu og færi. Það er áhugi hjá sumum þeirra að skoða möguleikann á gildruveiðum, sem eru afskaplega vistvænar veiðar og hafa lítinn kostnað oft og tíðum í för með sér. Reynslan erlendis frá sýnir það en reglurnar eru þannig að þeir verða að gjöra svo vel að taka sinn fisk á krók, þeir mega ekki taka hann í gildru, og við vildum skoða það að breyta því þannig að þeim sem vildu prófa gildruveiðar gæfist færi á að gera það. Við eigum að ýta undir ný veiðarfæri sem hafa sýnt sig annars staðar vera vistvæn og í góðu lagi en ekki að vera með svo forstokkað kerfi að nýjungar séu nánast bannaðar.

Eitt sem menn vildu ræða líka í minni hlutanum og gekk lítið að fá meiri hlutann til að ræða við okkur um var að skoða möguleikann á því að þrengja hvar mætti taka fisk sem tekinn er í kvíaeldi og þá með hvaða veiðarfærum. Ekki reyndist áhugi fyrir því.

Samstaða var í nefndinni um Hafró-aflann svokallaða, 0,5% í uppsjávarfiski og 5% í öðrum fiski, að það séu þau mörk sem við viljum sjá. Einnig voru menn sammála um að gera þetta ákvæði varanlegt í lögunum en ekki hafa það sem bráðabirgðaákvæði eins og áður hefur verið. Með fiskeldiskvótann það sama, að framlengja heimildina til að úthluta kvóta til kvíaeldis til fiskveiðiársins 2009–2010, um það var enginn ágreiningur.

Að endingu kemur fram í umsögn Hafrannsóknastofnunar að þar sem framlengja eigi fiskeldiskvóta og vegna orðalags í lögum varðandi þann kvóta telji þeir sig þurfa að ráða sérfræðing í hálft eða heilt starf til að fylgja eftir þeim lagatexta sem þar er og sinna þeirri rannsóknarskyldu sem á þá er lögð. Þeir telja og benda á að það verði af þessu aukinn kostnaður þannig að það stangast á við umsögn fjármálaráðuneytisins sem segir að verði þetta frumvarp að lögum fylgi því enginn kostnaður.

Herra forseti. Ég hef farið aðeins yfir þá fyrirvara sem við þingmenn Samfylkingarinnar í sjávarútvegsnefnd höfum við afgreiðslu þessa máls og ástæðuna fyrir því að við erum með fyrirvara á nefndarálitinu. Skoðun okkar er sú að þegar menn standa í tiltektum sé nauðsynlegt af og til að fara í stórhreingerningu og að ekki sé nægjanlegt alltaf að moppa bara í kringum hluti og þá staði sem mest eru áberandi, heldur þurfi menn að taka almennilega til endrum og eins. Ég held að það að við séum búin að breyta þessum lögum um stjórn fiskveiða 34 sinnum frá árinu 1992 — í skattalögum gætu verið til svipuð dæmi um svona miklar breytingar á lögum á eins skömmum tíma — en í lögum sem heil atvinnugrein starfar eftir, eins og sjávarútvegurinn, er í raun algjört öfugmæli að tala um stöðugleika í greininni á sama tíma og lögum er breytt eins oft og raun ber vitni.

Það er vilji okkar í minni hluta sjávarútvegsnefndar að gefa okkur góðan tíma til að fara yfir lögin um stjórn fiskveiða, velta því fyrir okkur í alvöru hvort ekki sé hægt að gera þau manneskjulegri, sanngjarnari og réttlátari en þau eru í dag og taka kannski meira mið af reynslu manna við rekstur í þessari grein en okkur finnst lögin gera í dag. Til þess þurfa þá meirihlutamenn í nefndinni að vera tilbúnir líka og vonum við að þeir vitkist.