131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Staðbundnir fjölmiðlar.

234. mál
[16:34]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu fór ég almennt í þetta mál. Við eigum að koma mjög almennt að staðbundnum fjölmiðlum að mínu mati, en hv. þingmaður tók eftir því í ræðu minni að ég tók tvö dæmi, annars vegar Skarp sem er gefinn út á Húsavík og hins vegar Vikudag á Akureyri. Þar var ég einungis að taka tvö glæsileg dæmi um slíkan rekstur og hvaða áhrif slíkir fjölmiðlar geta haft á nánasta umhverfi sitt og eflt sitt byggðarlag. Að sjálfsögðu munum við fara í það að styrkja öflugustu héraðsfréttamiðla landsins. Ég tel að það sé hlutverk þeirrar nefndar, sem við höfum lagt fram þingsályktunartillögu um að menntamálaráðherra skipi, að móta hvernig og hvaða fjölmiðlar verði styrktir, en að sjálfsögðu verður það gert á almennum nótum. Þótt það væri náttúrlega ágætt að styrkja sérstaklega staðbundna fjölmiðla í Þingeyjarsýslum og Eyjafjarðarsýslu þá held ég að það gangi ekki heilt yfir séð og ég verð ekki stuðningsmaður þess að við förum í svo sértækar aðgerðir. (Gripið fram í.) Hugsanlega var hv. þm. Hjálmar Árnason að gefa það í skyn að hann væri reiðubúinn að styrkja sérstaklega þessa tvo fjölmiðla en ég mun ekki styðja hann í þeim málflutningi. Ég vil að farið verði í almennar umræður. Og af því að hv. þm. Ögmundur Jónasson kallaði hér fram í þá sagði ég áðan um Ríkisútvarpið að fyrst við getum styrkt ríkisútvarp í landinu um 2.500 millj. kr. á ársgrundvelli, hljóta stjórnvöld að geta styrkt starfsemi þessara staðbundnu fjölmiðla með sama hætti en náttúrlega ekki í eins miklum mæli.