131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Dragnótaveiðar í Eyjafirði.

597. mál
[14:33]

Fyrirspyrjandi (Dagný Jónsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra svörin og þakka einnig fyrir umræðuna. Ég vona að í framtíðinni verði haft meira samráð um slíkar undanþágur við alla hlutaðeigandi aðila og tek undir með hv. þm. Jóni Gunnarssyni að kannski ætti ferlið að vera skýrara, en hæstv. ráðherra getur kannski komið betur inn á það á eftir.

Það er reyndar skoðun mín að kannski ættum við að veita sem fæstar undanþágur í slíkum tilfellum og ekki síst út af þeirri viðkvæmu náttúru sem í Eyjafirðinum er. Hæstv. sjávarútvegsráðherra minntist á lítinn skilning á Eyjafjarðarsvæðinu gagnvart dragnótinni. Þrátt fyrir að ég hafi ekki setið lengi á hv. Alþingi þá verð ég að segja að því er eins farið víðar. Þetta er ekki bara bundið við Eyjafjarðarsvæðið, ég man eftir því fyrir austan að þegar slíkur bátur var að nálgast firðina risu þar upp mikil mótmæli líka.