131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Jafnréttismál í landbúnaði.

[14:00]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil sérstaklega minna á og ítreka að landbúnaðarráðuneytið hefur gætt þess mjög, bæði innan sinna veggja og brýnt þá sem eiga að skipa í stöður, að skipa konur. Ég vil segja að af tíu háskólamenntuðum sérfræðingum sem ráðnir hafa verið til hinna ýmsu starfa innan ráðuneytisins í minni tíð hafa verið ráðnar átta konur, átta konur af tíu háskólamenntuðum fulltrúum sem hafa verið ráðnir.

Heildarfjöldi starfsmanna ráðuneytisins er nú 22, þar af 14 konur. Af 13 starfsmönnum með háskólamenntun eru sjö konur en sex karlar svo að menn átti sig á þessari stöðu. Hitt er svo sameiginlegt vandamál sem mér finnst að landbúnaðurinn allur standi frammi fyrir, ekki síst hinn gamli gróni landbúnaður. Ég var á aðalfundi Mjólkurbús Flóamanna, míns gamla vinnustaðar, fyrir stuttu síðan. Þar voru 40 fulltrúar, þar af ein kona. Þannig er þetta í afurðasvæðageiranum.

Ég var aftur á móti á aðalfundi Félags ferðaþjónustubænda í gærkvöldi. Þar var mikið jafnræði með körlum og konum þannig að í hinum nýju búgreinum virðast konurnar koma mjög sterkar til starfa.

Við fylgjum auðvitað jafnréttisáætlun okkar og höfum gert það. Eins og ég hef getið hef ég mjög starfað með grasrótarhreyfingu kvenna, Lifandi landbúnaður – Gullið heima. Þetta er verkefni og vinna sem við þurfum að halda áfram. Ég er sannfærður um að landbúnaðurinn verður sterkari ef fleiri konur koma til starfa á öllum sviðum atvinnugreinarinnar, bæði á búnaðarþingi, í forustu, í félagssamtökum bænda o.s.frv. Það er mikið verkefni og ég trúi því að konurnar muni sækja þar fram og að körlum beri að styðja þær til starfa. Það styrkir íslenskan landbúnað best.