131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

723. mál
[15:52]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held ég verði þrátt fyrir allt að halda áfram að hæla hv. þingmanni fyrir einmitt að treysta á litlu margföldunartöfluna og vera ekki að láta stóru margföldunartöfluna þvælast fyrir sér, allra síst af mönnum sem ekki ráða við hana, og notfæra sér þannig þau skilningarvit sem maður ræður við.

Ég treysti því reyndar líka að hæstv. umhverfisráðherra, sem einnig hefur mikla reynslu í sveitarstjórn, geti látið sannfærast ef hún er ekki þegar sannfærð um að við erum hér á villigötum með þetta frumvarp. Ég treysti því reyndar að hæstv. ráðherra sjái að sér.

Það er eitt sem hv. þingmaður minntist einmitt á, það er að hvatt skuli vera til þess og rekið til þess af hálfu félagsmálaráðuneytisins, það er verið að knýja sveitarfélögin til að setja upp þannig bókhaldsform að sýna niðurstöðutölur sem eru einhverjum aðilum þóknanlegar, þá er nauðsynlegt að setja sem flesta þætti út úr hinum almenna rekstri sveitarfélaganna og þá leiðast menn út í annars vegar bókhaldsbrellur og hins vegar einkavæðingu sem gefur kolranga mynd af raunveruleikanum sem er. Því þarf að breyta líka.