131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga.

457. mál
[12:19]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Því er til að svara að sú nefnd sem þáverandi forsætisráðherra skipaði haustið 2002 og var falið að undirbúa stefnu í málefnum barna og unglinga skilaði skýrslu til forsætisráðherra í lok síðasta mánaðar. Sú skýrsla var send Alþingi með bréfi þann 1. apríl sl.

Þann 1. febrúar árið 2002 skipaði ég með samþykki ríkisstjórnarinnar nefnd til að meta stöðu íslensku fjölskyldunnar og koma með tillögur í því augnamiði að styrkja stöðu hennar. Ég hef því ákveðið að fela þeirri nefnd að fara yfir þær tillögur sem í skýrslunni er að finna með það í huga að fella þær að öðrum tillögum sem miða að því að styrkja stöðu fjölskyldunnar í landinu. Ég tel eðlilegan farveg að fela fjölskyldunefndinni næsta skref í mótun opinberrar stefnu í málefnum barna og ungmenna enda hlýtur slík stefna að vera hluti af opinberri stefnu í málefnum fjölskyldunnar.

Ég hef farið þess á leit við fjölskyldunefndina að hraða eins og frekast er kostur yfirferð yfir skýrslu þeirrar nefndar sem nú hefur skilað áliti um stefnumörkun í málefnum barna og ungmenna þannig að því starfi sem ályktun Alþingis kvað á um verði lokið sem fyrst.

Eins og fram kemur í inngangi skýrslunnar hefur starf nefndarinnar af ýmsum ástæðum tekið lengri tíma en upphaflega var áætlað, eins og oft vill verða. Nefndin aflaði sér yfirgripsmikilla upplýsinga og leitaði eftir sjónarmiðum fjölmargra aðila. Þá einsetti nefndin sér að leita eftir sjónarmiðum barna varðandi stefnuna og hafa víðtækt samráð við aðila sem þekkja til málefna barna. Úrvinnsla alls þessa kallar á mikla vinnu ef vel á að takast til um samræmdar og samþættar aðgerðir.

Af lestri skýrslunnar er augljóst að þar er að finna mikilvægar upplýsingar um þennan málaflokk sem er fram settur með skipulegum hætti. Hún mun því koma að mjög góðu gagni við endanlega mótun opinberrar stefnu í málaflokknum og við gerð áætlunar um framkvæmd hennar.

Nefndin setur fram sjö meginmarkmið í stefnu í málefnum barna og ungmenna sem hún telur vera brýnustu úrlausnarefnin á þessu sviði. Jafnframt gerir nefndin ítarlega tillögu um nánari útfærslu allra markmiðanna. Nefndin telur að athuguðu máli að brýnustu úrlausnarefnin í þessum málaflokki séu eftirfarandi:

1. að aðgerðir hins opinbera í þágu barna og ungmenna, stjórnun þeirra og framkvæmd séu ávallt markvissar, skilvirkar og árangursríkar,

2. að ávallt liggi fyrir heildstæðar og áreiðanlegar almennar upplýsingar um börn og ungmenni hérlendis,

3. að styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu,

4. að efla heilsugæslu í skólum,

5. að fjárhagslegur stuðningur hins opinbera við fátækar barnafjölskyldur sé nægur og skilvirkur,

6. að forvarnir í greiningu og meðferð geð- og atferlisraskana hjá börnum og ungmennum verði aðgengilegar, skilvirkar og árangursríkar,

7. að börn af erlendum uppruna fái öflugan stuðning opinberra aðila til að aðlagast hinu nýja íslenska samfélagi.

Ég dreg ekki í efa að nefndinni ratist rétt til í þessu mati sínu á áherslum. Ég tel hins vegar afar mikilvægt að við frekari stefnumótun og úrlausn viðfangsefna sé litið til fjölskyldunnar í heild. Þó svo að hið opinbera hafi vissulega mikilvægum skyldum að gegna gagnvart börnum og unglingum má aldrei gleyma mikilvægi foreldranna við uppeldi og aðhlynningu barna sinna.