131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Sláturhúsið á Kirkjubæjarklaustri.

611. mál
[14:49]

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Sláturhúsið á Kirkjubæjarklaustri er hér til umræðu og það fer ekkert á milli mála að það hefur haft afar mikla þýðingu, bæði fyrir sveitarfélagið og eins fyrir þá sem hafa haft þar atvinnu. Eins og fram hefur komið er það alfarið ákvörðun Sláturfélags Suðurlands að taka þátt í úreldingu sláturhúsa og ég tek undir með hæstv. landbúnaðarráðherra að það er ekki hægt að taka afturvirka ákvörðun í þessu sambandi, það gengur einfaldlega ekki. Það var því alfarið ákvörðun Sláturfélagsins að fara í þessa aðgerð, eins og fram hefur komið bæði með fundum þingmanna kjördæmisins og landbúnaðarnefndar en að sjálfsögðu þarf eitthvað annað að koma til fyrir þetta samfélag. Það er mjög mikilvægt að ríkið komi að því í gegnum t.d. Byggðastofnun og atvinnuþróunarsjóð og ég vil benda á að það eru mikil sóknarfæri og margir möguleikar á Klaustri (Forseti hringir.) og með tilkomu Vatnajökulsþjóðgarðs.