131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[19:17]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Varðandi sameignarfélögin fyrst, virðulegi forseti, sem ég nefndi þá setti ég það fram vissulega bara sem ein rök máli mínu til stuðnings um að eðlilegt væri að fresta þessu máli til haustsins vegna þess að við eigum engin lög um sameignarfélög. Þau eru í smíðum og það er eðlilegt að þetta sé skoðað samhliða þó ekki sé endilega víst að breyta þurfi sérlögum um RÚV þegar hæstv. viðskiptaráðherra leggur fram sitt frumvarp. Þó eru ákveðnar vísbendingar um að svo þyrfti að vera. Aðalatriðið er að við getum náð saman um að fresta þessu máli og þetta verði ekki sett í lög nema að reyna að ná sátt í málinu fyrst eins og við höfum hér verið að kalla eftir og um leið og frumvarpið almennt um fjölmiðla verður lagt fram á haustdögum.

Síðara atriðið um að ég hefði sagt að verið væri að auka pólitísk ítök þá hefur hv. þingmaður annaðhvort ekki heyrt hvað sagt var eða ég missagt eitthvað vegna þess að ég var að segja að áfram væru pólitísk ítök í RÚV þrátt fyrir þessa breytingu og rökstuddi það með því að ekki væri nú voðalegur munur á skipan þessarar nýju stjórnar og útvarpsráðs, sem á raunverulega að skipa með sama hætti á Alþingi alveg eins og útvarpsráð er skipað þó vissulega sé verið að breyta því í þá veru að stjórnin fjalli um rekstrarþáttinn fyrst og fremst.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann telji ekki eðlilegt, eins og við höfum lagt til og ég og hv. þm. Mörður Árnason höfum kallað eftir, að starfsmenn eigi sæti í þessari stjórn. Það mundi draga úr þeim pólitísku ítökum sem vissulega eru til staðar enn þá. Ég hef líka haldið því fram að útvarpsstjóri verði áfram pólitískt skipaður vegna þess að meiri hluti þessarar stjórnar fyrst og fremst, ef starfsmenn verða ekki þarna innan borðs, mun ráða ferðinni. Þarna verður (Forseti hringir.) ráðherravaldið yfir stofnuninni áfram fyrir hendi.