131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[21:41]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég biðst afsökunar á að hafa verið í andsvari því að það kemur í ljós að gagnrýni hv. þm. Jónínu Bjartmarz er tilefnislaus því að hún hefur ekki verið við umræðuna og ekki heyrt það sem þrír þingmenn Samfylkingarinnar hafa haft fram að færa í samtals 60 mínútur, ég, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og hv. þm. Einar Karl Haraldsson. Allt sem frá okkur er komið í því hefur byggst meira og minna á þeirri tillögu til þingsályktunar sem hér er um að ræða.

Kannski tíðkast það ekki í Framsóknarflokknum að reifa málin sem kallað er, að setja grundvöll undir umræðu, heldur geri menn það eitt í Framsóknarflokknum að festa sig í ákveðna tillögu, af því að nefnd er fjármögnunarleiðin. Við segjum ósköp einfaldlega, sem er niðurstaðan af þessari umræðu líka: Það er enginn sérlega góður kostur við afnotagjöldin. Við þurfum ósköp einfaldlega að finna í sameiningu hver skásti kosturinn fyrir Ríkisútvarpið í afnotagjöldunum er.

Hitt er alveg klárt að við viljum búa til t.d. eldvegg gagnvart viðskiptahagsmunum og eldvegg gagnvart pólitískum hagsmunum. Það er ekki sú leið sem farin er í frumvarpinu.