131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[16:04]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ekki er unnt á þeim stutta tíma sem er til ráðstöfunar að svara þeim spurningum sem hv. þingmaður bar upp. En ég vil vekja athygli á einu atriði vegna þess hversu sterkt hv. þingmaður tók til orða. Alvarlegustu slysin í umferðinni á Íslandi verða á þjóðvegum landsins þar sem ökuhraðinn er mikill og ekki síst þess vegna — og það ættu hv. þingmenn Reykjavíkurkjördæmanna beggja að skynja og skilja — einmitt þess vegna, vegna þess að umferðin um þjóðvegi landsins er mikil og þar verða alvarlegustu slysin, leggjum við svo mikla fjármuni í uppbyggingu vegakerfisins úti á landi. Hv. þingmenn Reykjavíkur verða að fara að átta sig á því, ekki síst vegna þess að íbúar höfuðborgarinnar eru á ferðinni um landið. Það er afar mikilvægt að þingmenn átti sig á þessum staðreyndum. Við erum að gera hér áætlun um að auka öryggi á þjóðvegum landsins. Það er ekki eingöngu verið að bæta vegakerfið fyrir íbúa tiltekins svæðis. Fjöldinn allur af erlendum ferðamönnum fer um landið. Fjöldinn allur af íbúum höfuðborgarsvæðisins fer um landið og á það á hættu að lenda í umferðarslysum vegna þess hversu vegakerfið er bágborið. Þess vegna leggjum við áherslu á uppbyggingu vegakerfisins. (Gripið fram í.)