131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[16:06]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er auðvitað ekki með mínum orðum að gera lítið úr alvarleika umferðarslysa úti á landsbyggðinni. Þar hafa orðið mjög mörg og alvarleg slys. Ég var bara að vitna í skýrslu hæstv. ráðherra sjálfs, samgönguáætlunina, þar sem segir, og er þá verið að vitna til höfuðborgarsvæðisins, með leyfi forseta:

„Á þessu svæði er þjóðvegaumferð langmest og slys tíðust.“

Þar segir líka að á þessu svæði sé unnt að fækka umferðarslysum mest. Ég var einungis að vitna í skýrslu hæstv. ráðherra og hæstv. ráðherra getur varla mótmælt því hvað umferðarþunginn hefur aukist mikið á umliðnum árum á þessu svæði, m.a. vegna þeirra ástæðna sem ég hér nefndi.

Mér fannst mjög sérstakt, virðulegi forseti, úr því að ráðherra kom hér í andsvar sem ég þakka auðvitað fyrir, að hæstv. ráðherra sæi ekki neina ástæðu til þess að svara þeim spurningum sem ég beindi til hans um Sundabrautina meðal annars. Það er mjög mikilvægt að fá fram hjá hæstv. ráðherra hvað hann hugsar sér varðandi framkvæmdafé í Sundabrautina. Hönnunarfé er af skornum skammti sem ekki mun einu sinni duga. Miðað við öll áform — og umhverfismat mun liggja fyrir fljótlega — verður hægt að ráðast hér í framkvæmdir á árinu 2007 og það kallar á framkvæmdafé í þessari áætlun. Ef það verður ekki þá blasir við að ekki verður hægt að hefja framkvæmdir fyrr en árið 2009 sem er alls óásættanlegt.

Ég spyr hvað hæstv. ráðherra sé að hugsa um einkaframkvæmd sem ég hef séð haft eftir honum. Er ráðherrann að íhuga gjaldtöku með einhverjum hætti? Um það hef ég spurt hér, hæstv. forseti, og það er mikilvægt að fá það fram hér í þessari umræðu? Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji það ekki sanngjarna ósk af hálfu okkar þingmanna Reykvíkinga að ráðherrann beiti sér fyrir því að sett verði fram tímaáætlun um það hvernig fjármagn komi inn í þessa framkvæmd að því er Sundabrautina varðar. Mér finnst það lágmarkskrafa. Við þingmenn Reykvíkinga höfum verið þolinmóðir (Forseti hringir.) gagnvart landsbyggðinni. En við óskum líka eftir sanngirni, virðulegi forseti, af hálfu samgönguráðherra í þessu máli.