131. löggjafarþing — 108. fundur,  12. apr. 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:30]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, að á Akureyrarsvæðinu eru margir tengivegir. Ég man ekki til þess að þeir fái mikla fjármuni eins og þessi vegáætlun lítur út og eins og um hana hefur verið hugsað. En það er svona í vegamálum, að það verður að byrja einhvers staðar og menn geta ekki verið alls staðar samtímis.

Það var athyglisvert sem hv. þingmaður sagði fyrr í kvöld, að hægt væri að fara í jarðgöng til Siglufjarðar fyrir 2,5 milljarða kr. með öllum tengingum, og mér skildist helst með Lágheiði líka sem ég skil ekki. En séu hins vegar farin Héðinsfjarðargöng þá muni það kosta 7 milljarða kr. en þá sagði hv. þingmaður að bæta þyrfti við 3 milljörðum kr. til að breikka Ólafsfjarðargöng. Mér fannst athyglisvert, í því sem hv. þingmaður sagði eins og hann orðaði hugsun sína, að ef farin yrðu Héðinsfjarðargöng yrði þörf fyrir að breikka Ólafsfjarðargöngin en ekki ef göng yrðu frá Siglufirði yfir í Fljótin. Þetta lýsir í raun í hnotskurn því sem um er að ræða. Við stefnum að því að Eyjafjörður verði eitt atvinnusvæði og það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað mun umferð aukast mjög mikið um Ólafsfjarðargöngin ef önnur göng koma til Siglufjarðar. Það mun styrkja allar þessar byggðir þannig að þessi hugsun hv. þingmanns er alveg rétt. Ég tek undir það með honum að ef ekki kemur til Héðinsfjarðarganga þá þarf ekki að breikka Ólafsfjarðargöngin. Þetta er alveg rétt hjá hv. þingmanni.

Hinu tók ég líka eftir, sem hann missti út úr sér í leiðinni, að honum þætti vont ef einhver umferð yrði um Héðinsfjörð. Ég hugsa þá um hvernig hann umgengst Elliðavatn og alla þá steinkumbalda þar í kring. Ég hygg þess vegna að hann meti steinsteypu meira en náttúrufegurð.