131. löggjafarþing — 109. fundur,  13. apr. 2005.

Endurgreiðslur gjalda íslensk skipaiðnaðar.

710. mál
[14:23]

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Frú forseti. Ég fagna þessari fyrirspurn hv. þm. Guðjóns Guðmundssonar. Það voru vissulega orð í tíma töluð sem hér voru borin fram og svar hæstv. fjármálaráðherra. Við höfum horft allt of mikið til háskólamenntunar á Íslandi en sú mikla þekking og reynsla sem við höfum átt í mörgum iðngreinum samanber skipasmíðar hefur oft fallið í skuggann. Það er einhvern veginn þannig eins og dæmi eru um nú nýlega um Landhelgisgæsluna þar sem tilboða var leitað erlendis og þau tekin, að íslensk útgerð, hvort sem það er kaupskipaútgerð eða fiskiskipaútgerð, gerir kröfur um að eiga greiðan aðgang að járniðnaðarmönnum og slippum ef eitthvað bjátar á. En þess í milli virðist það vera svo að útgerðinni sé nákvæmlega sama um hvort járniðnaðarmenn séu tiltækir eða ekki til viðhalds og viðgerða á þessum skipum, því miður.

Þess vegna fagna ég yfirlýsingu fjármálaráðherra og heiti á hann að koma kröftuglega fram til að efla skipasmíðaiðnaðinn.