131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[16:18]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin.

Varðandi ábyrgð útgerðar og skipstjóra á því að fylgjast með stöðu aflaheimilda skipa sinna þá kemur fram í svari hæstv. ráðherra að útgerðarmaður og skipstjóri bera jafnmikla eða jafna ábyrgð á því að skip fari ekki á sjó án þess að aflaheimildir séu fyrir hendi.

Það getur vel verið að í upphafi veiðiferðar sé aflastaða skipsins þannig að skipstjóri meti það svo að hún dugi fyrir þann veiðitúr sem verið er að fara í á dagróðrabáti eða báti sem er lengri tíma úti. En svo gerist það eins og oft gerist við veiðar, sem betur fer, að aflabrögð eru betri en menn áttu von á og þegar búið er að leggja í sjó net eða línu þá draga menn það um borð sem kemur. Maður veltir þá fyrir sér þessari jöfnu ábyrgð skipstjóra og útgerðarmanns því að skipstjórinn er náttúrlega persóna sem ber ábyrgð sem einstaklingur en útgerðarmaðurinn er jafnvel lögaðili og fyrirtækið sem ber þá ábyrgð.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Er það svo ef fyrirtæki gerir út bát, lögaðili með kennitölu, að þá sé lögaðilinn sóttur er til saka, ef þarf, og jafnframt persónan skipstjórinn? Getur verið að útgerðarmaðurinn í þessu tilviki sem persóna beri enga ábyrgð heldur eingöngu fyrirtækið?

Ég kann þetta ekki samkvæmt þeim lögum sem gilda um refsingar í þessu regluverki öllu en þætti vænt um ef ráðherra gæti upplýst mig um hvort það geti verið að annars vegar sé um að ræða lögaðila sem tekur skellinn og hins vegar persónu sem er þá skipstjóri og launþegi hjá lögaðilanum.