131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Umgengni um nytjastofna sjávar.

732. mál
[16:53]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ég hafi nú ekki notað orðið „ívilnandi“. Ég held að ég hafi talað um að mönnum væri gert auðveldara að vinna vinnuna sína. Það er einfaldlega notast við aðra aðferð til þess að meta hvernig aflinn er samsettur til þess að fá fram rétta skráningu.

Varðandi það að aðrar reglur gildi: Ef við teljum betra, á grundvelli laganna um umgengni um nytjastofna sjávar, að hafa aðrar reglur um uppsjávarveiðarnar en um aðrar veiðar þá tel ég alveg sjálfsagt að við gerum það. Þess vegna legg ég þetta til.

Ég tel hins vegar ekki að betra sé að láta þessa reglu gilda um aðrar veiðar, a.m.k. ekki almennt. Ég held ekki að það væri neitt hagræði í því fyrir sjómenn og útgerðarmenn á öðrum veiðum að hafa reglur eins og hér um ræðir. Ég held því að það vandamál sem hv. þingmaður hefur nefnt, að það halli að einhverju leyti á þá við þessa breytingu, sé alls ekki til staðar. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því. Við erum einfaldlega að reyna að gera hlutina þannig úr garði að betra sé að gera þá rétt, betra að skrá aflann rétt. Ég vonast bara til að nefndin geri okkur það mögulegt með því að leggja til að frumvarpið verði samþykkt.