131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Sameining heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu.

[15:15]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Undanfarin missiri höfum við í heilbrigðisráðuneytinu verið að skoða skipulag heilbrigðisþjónustunnar á landsvísu. Fram hafa farið nokkrar sameiningar sem hafa reynst vel og sú síðasta á Suðurlandi. Við höfum sett fram hugmyndir um það að sameina heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu, eins og hv. þingmaður segir. Við höfum í sjálfu sér getað gefið út ákvörðun um það en ég taldi rétt að við settum fram þessar hugmyndir, ræddum þær og kynntum fyrir sveitarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu og starfsfólki heilsugæslunnar. Þau skoðanaskipti hafa farið fram undanfarið. Við höfum sett fram okkar rök og þau hafa sett fram sín.

Það er óttast að þetta lengi leiðslur, eins og hv. þingmaður sagði. Ég held að það sé ástæðulaus ótti. Það er ekki ætlunin að þjónusta heilsugæslunnar breytist í sjálfu sér neitt við þetta, nema sameinuð heilsugæsla hefur tækifæri til að taka myndarlegar á stærri verkefnum. Nærþjónusta og heimilishjálp ættu að geta gengið fram með sama hætti. Við munum skiptast á skoðunum um þetta og fara yfir málið. Eins og ég sagði vildi ég vinna þannig að þessu.

Það er engin stefnubreyting af minni hálfu varðandi sveitarfélögin, heilsugæsluna og öldrunarþjónustuna. Ef menn eru tilbúnir að fara í það á landsvísu erum við tilbúin til þess. Ég sé ekki sólarmerki um að mikil hreyfing sé á því máli um þessar mundir en við erum tilbúin (Forseti hringir.) í þann dans ef upp er boðið.