131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[15:00]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki hefur enn komið til þess að hér myndaðist öflugur eða stór alþjónustusjóður. Þetta hefur fyrst og fremst snúist um það að Landssíminn hefur að sjálfsögðu sinnt þessari alþjónustuskyldu en í framtíðinni getur farið svo að það verði meira umfang í þessum efnum. Ég hef ekki þær tölur sem hér er um að ræða, enda er varla til þess komið eins og ég sagði að nýta þessar heimildir svo nokkru nemi.

Aðeins varðandi þetta mat á markaðshlutdeildinni, það er verið að endurskilgreina þessa hugmyndafræði og hugtökin. Veruleg vinna er í gangi núna að svokallaðri markaðsgreiningu og verið að meta styrk þessara fyrirtækja og aðstöðu. Ég tel að sú breyting sem hér er lögð til sé líkleg til að gera þessa hluti skýrari og verði til þess að auðvelda Póst- og fjarskiptastofnun að taka á þeim kærumálum og úrlausnarefnum sem til stofnunarinnar koma vegna mats á markaðshlutdeild. Það væri mjög nauðsynlegt og í rauninni mikilvægt fyrir hv. samgöngunefnd að fara rækilega yfir þessa þætti til að skynja þau margháttuðu viðfangsefni sem Póst- og fjarskiptastofnun getur þurft að standa frammi fyrir hvað þetta varðar.