131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[17:45]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á vettvangi Evrópusamstarfs hefur verið heilmikil umfjöllun um hvernig skapa megi sem mest öryggi í kringum notkun internetsins og fjarskiptanna og mjög víða hafa þing og ríkisstjórnir og aðrir fjallað um það.

Eins og ég gat um fyrr eru þau ákvæði í frumvarpinu sem lúta að aðgangsmöguleikum vegna rannsókna hluti af tilskipun sem heimilar útfærslu á þeim ákvæðum sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Mörg lönd hafa lagt lóð á vogarskálarnar í aðdraganda þess að þessar tilskipanir voru settar.

Ég hef ekki við höndina upplýsingar um hvaða þjóðir það eru sem hafa tekið þetta upp en þær eru til. Aðalatriðið er að þessir rammar hafa verið settir á vettvangi Evrópusamstarfsins í formi tilskipana sem við erum að fikra okkur inn í með þeim ákvæðum sem hér er verið að fjalla um.