131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Stefna í fjarskiptamálum 2005--2010.

746. mál
[18:41]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel mjög jákvætt að setja sér markmið og það eru vissulega góð markmið í þessari fjarskiptaáætlun. En spurningin sem vaknar í þessu máli er: Er búið að meta kostnaðinn við að ná þessum markmiðum? Það væri fróðlegt ef hæstv. samgönguráðherra gæti gefið upp hvort búið er að kostnaðarmeta markmiðin að einhverju leyti þannig að menn viti að hverju þeir ganga.

Annað er einnig mjög mikilvægt þegar menn setja sér markmið, þ.e. að menn hafi einhver mælanleg viðmið svo þeir sjái hvenær þeir ná árangri. Hver á þá að fylgjast með því og kannski gefa um það skýrslu á Alþingi hvort við höfum náð árangri á þessu sviði?

Ég man eftir byggðaáætlun sem hér hefur iðulega verið rætt um. Þar eru engin viðmið. Þar kemur ekki fram fjöldi starfa, fækkun íbúa eða fjölgun á viðkomandi svæði. En þegar farið er af stað með slík verkefni er mjög æskilegt að menn setji sér einhverjar mælistærðir þannig að þeir viti hvort náðst hafi árangur en markmiðin séu ekki bara eitthvað út í loftið.

Ég man eftir einu markmiði sem hefur nú ekki náðst, sem var sett af ágætum meindýraeyði. Það var „Rottulaust Ísland fyrir árið 2000“. Ég verð að segja það að markmiðin eru göfug, eins og þetta með rottulaust Ísland, en það væri mjög æskilegt ef hæstv. ráðherra færi yfir það hvernig ætlunin er að meta árangurinn.