131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Stefna í fjarskiptamálum 2005--2010.

746. mál
[19:54]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það sem hér er að gerast er í hnotskurn að það á að einkavæða tiltekna starfsemi en um leið viðurkenna menn að markaðurinn muni aldrei leysa þetta verkefni sómasamlega af hendi einn og óstýrður. Þá grípa menn til þeirra ráða að leggja kvaðir á fyrirtækin og skilgreina ákveðna þjónustu sem þau verða að uppfylla. Auðvitað grípa stjórnvöld þar með strax inn í og það er viðurkenning á því að markaðurinn muni ekki leysa þetta með sómasamlegum hætti í þágu allra landsmanna. Þar sem það dugar svo ekki til að skilgreina kröfur um alþjónustu eða samþjónustu eða hvað menn velja nú að kalla það á að beita skattpeningum. Þá á að beita opinberu fé til að stoppa í götin. Þetta er krókótt leið. Þetta vandamál glíma menn víða við á byggðu bóli.

Svíar hafa rætt það mjög mikið hver eigi að leggja síðustu míluna. Þeir hafa þegar reynt að glíma við vandann með þeim aðferðum sem hér á að fara að byrja á á Íslandi. Þeir hafa sett milljarðatugi sænskra króna í að reyna að breiðbandsvæða strjálbýlið í Svíþjóð með takmörkuðum árangri, sem þeir nú sjálfir viðurkenna, vegna þess að það er engin einföld, auðveld lausn á flóknu vandamáli af þessu tagi.

Ég gagnrýni það og tel mig gera það á traustum fræðilegum grunni að ríkið sem eigandi Símans hefði að sjálfsögðu getað á umliðnum árum haft stefnu um það hvernig það fyrirtæki starfaði. Það hefði ekki brotið nein lög, hvorki guðs né manna, ekki hlutafélagalög, ekki samkeppnisreglur. Ríkið hefur því miður ekki markað sér stefnu. Síminn hefur hegðað sér eins og að nú þegar ætti hann einhver annar en hið opinbera. Það hefði að mínu mati verið góð fjárfesting ef Síminn hefði tekið skyldur sínar sem landsfyrirtæki alvarlegar á undanförnum missirum og lagt meiri fjármuni í uppbyggingu farsímakerfisins og hraðari breiðbandsvæðingu. Hann stæði sterkari að vígi í dag og með betri ímynd meðal þjóðarinnar.