131. löggjafarþing — 114. fundur,  20. apr. 2005.

Þjónustuskyldur í eldsneytisafgreiðslu.

773. mál
[15:49]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Einn af grunnþáttum í þjónustu við hvert samfélag, einstaklinga og atvinnulíf er gott aðgengi að eldsneyti, olíum og bensíni. Þetta er ekki aðeins fyrir íbúa á viðkomandi svæðum vítt og breitt um landið, heldur líka fyrir ferðamenn og aðra sem fara um. Þess vegna er mikilvægt að olíu- og bensínafgreiðslustöðvar séu sem víðast, eigi til nægilegar birgðir og geti afgreitt eldsneyti þegar þess er óskað.

Margar eldsneytisafgreiðslustöðvar hafa tekið þann kost að vera með sjálfsafgreiðslu og þá þarf að vera með t.d. vísakort. Í sumum tilvikum eru menn með kort sem aðeins er hægt að kaupa hjá viðkomandi olíufyrirtækjum til að nota hjá þeim. Þetta hefur valdið vandkvæðum vítt og breitt um landið, t.d. í strjálbýli, bæði fyrir íbúana en ekki síst fyrir ferðamenn sem ekki geta þá keypt eldsneyti á bíla sína nema með því að nota ákveðið kort. Ekki er hægt að staðgreiða eldsneytið. En þessi afgreiðsla er líka háð því að bæði rafmagn og sími séu í lagi, og skemmst er að minnast fréttar sem birtist í blöðum í aprílbyrjun. Ég er með úrklippu úr Fréttablaðinu 11. apríl vegna ástands á Vopnafirði þar sem ekki var hægt að afgreiða þar bensín eða dísilolíu frá morgni miðvikudags og fram eftir degi vegna bilunar í símalínu, eins og stendur í fréttinni. Aðeins er hægt að kaupa eldsneyti á Vopnafirði í sjálfsala og ef hann bilar er ekki hægt að kaupa eldsneyti í byggðarlaginu en Vopnafjarðarhreppur telur á áttunda hundrað íbúa. Þarna var sjálfsalinn háður ISDN-tengingu sem bilaði umræddan dag en komst í lag aftur samdægurs. Þessi afgreiðsla er sem sagt háð bæði rafmagni og símtengingum og er þá hættulegt ef það bilar.

Þess vegna leyfi ég mér að spyrja ráðherra:

1. Telur ráðherra koma til greina að setja reglur um lágmarksþjónustu í eldsneytisafgreiðslu í fámennum byggðarlögum utan alfaraleiða?

2. Telur ráðherra koma til greina að gera kröfur um lágmarkseldsneytisbirgðir í byggðarlögum sem geta einangrast vegna óveðurs eða náttúruhamfara?

3. Kemur til greina að gera olíufélögum skylt að hafa á eldsneytisafgreiðslustöðvum sínum öryggisbúnað sem geri kleift að afgreiða eldsneyti þótt þar verði rafmagns- eða símasambandslaust um stundarsakir? (Forseti hringir.)