131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[12:42]

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér hefur verið haldin mjög lærð ræða með ágætri yfirferð yfir málefni lífeyrissjóðanna. Það er mjög fróðlegt að hlusta á hv. þm. Ögmund Jónasson sem er lífeyrissjóðunum vel kunnugur og maður lærir mikið af því að hlusta á hann fara yfir þessi mál.

En það var mjög athyglisvert sem kom fram í ræðu hv. þingmanns í sambandi við örorkubætur, að þær séu orðnar um helmingur greiðslna úr lífeyrissjóðum. Það vekur mann til umhugsunar. Eins ræddi hann um ástandið á vinnumarkaðnum og hvort það væri vegna þess að vinnumarkaðurinn sé grimmari núna en áður. En gæti það ekki líka verið, hv. þingmaður, að það sé vegna þess að áður fyrr vildi fólk ekki skrá sig atvinnulaust þótt það væri atvinnulaust? Allt umhverfið hefur breyst og það þykir ekki nein skömm lengur að skrá sig atvinnulausan, sem þótti skömm áður fyrr. Fólk vildi ekki viðurkenna það. Nú eru þessi réttindi svo sjálfsögð að fólk leitar eftir þeim án þess að skammast sín fyrir það. Sem betur fer er kominn annar hugsunarháttur í þeim efnum.

Það er nánast ekkert atvinnuleysi hér á landi. Í fyrsta skipti, frá því að ég fór að skipta mér af pólitík, þá er staðan sú í Vestmannaeyjum að þar er verið að hugsa um að sækja fólk annað til að vinna af því að þar er nánast ekkert atvinnuleysi. Auðvitað vitum við að það er alltaf einhver ákveðinn hluti af fólki sem er á atvinnuleysisbótum sem ætti kannski frekar að vera á örorkubótum. Ég held að við eigum að gera meira af því, í stað þess að setja ungt fólk á örorkubætur, að hjálpa því til að leita sér að vinnu og þjálfa það til starfa. Ég held að það verði aldrei gert of mikið af því að hjálpa fólki til sjálfsbjargar.