131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Breyting á ýmsum lögum á orkusviði.

396. mál
[16:47]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á ýmsum lögum á orkusviði. Ég er formaður í hv. iðnaðarnefnd en var því miður í opinberum erindagjörðum á vegum Alþingis á þeim tíma sem frumvarpið var tekið út úr hv. iðnaðarnefnd, en kom vissulega að umfjöllun um málið í aðdraganda þess.

Frumvarpið tengist óneitanlega nýjum raforkulögum og nýskipan raforkumála í landinu og með það í huga að það samkeppnisumhverfi sem stjórnarflokkarnir hafa viljað innleiða í raforkukerfið og reyndar Samfylkingin líka, tveir stjórnarandstöðuflokkar hafa aftur á móti verið á móti kerfisbreytingunni, Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn. Í raforkumálunum hafa því þrír stærstu stjórnmálaflokkar landsins staðið hlið við hlið og gengið taktfast saman þá leið að koma á samkeppnisumhverfi á raforkumarkaði. Við erum m.a. að eyða mismuni í opinberum rekstri og einkarekstri í þessum geira, því það er nú einu sinni þannig að raforkufyrirtæki hér á landi eru ekki öll í eigu opinberra aðila. Raforkufyrirtæki eru jú í eigu ríkisins og í eigu sveitarfélaga en við finnum fjöldamörg einkafyrirtæki á raforkumarkaði, raforkubændur, vítt og breitt um landið sem munu verða í samkeppni við þá aðila. Við getum tekið Múlavirkjun sem dæmi og fleiri virkjanir hringinn í kringum landið sem munu framleiða inn á kerfið í framtíðinni. Það segir sig náttúrlega sjálft, og þeim fer fjölgandi sem telja það, sem betur fer, að það er ekki hægt fyrir einkafyrirtækin að standa í samkeppnisrekstri við ríkið og sveitarfélög ef þau sitja ekki við sama borð í þeim efnum. Það kemur mér mjög á óvart að forustumaður Samfylkingarinnar í hv. iðnaðarnefnd, hv. þm. Jóhann Ársælsson, skuli ekki fylgja okkur stjórnarliðum í málinu, því hér er verið að jafna aðstöðumun á milli fyrirtækja annars vegar í opinberri eigu og hins vegar einkaaðila á þessum markaði.

Hæstv. forseti. Ég vil gera það að umtalsefni, því hv. þingmaður þekkir vel til á Vesturlandi og við vorum sammála um að afgreiða ný raforkulög, að við gátum farið í stækkun álversins á Grundartanga vegna þeirra breytinga. Fyrir breytingu á raforkulögunum hafði Landsvirkjun einkarétt til framleiðslu vegna stóriðju en í dag geta sem betur fer glæsileg fyrirtæki eins og Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja framleitt raforku vegna framkvæmdanna. Það skipti mjög miklu máli fyrir íbúa á Vesturlandi að raforkulögin náðu fram að ganga vegna þess að ef einkaleyfið hefði ekki verið afnumið hefði verið mjög erfitt fyrir fyrirtækin að framleiða raforku vegna framleiðslunnar. Við skulum hafa það í huga að sú stækkun sem mun eiga sér stað á Grundartanga mun skapa 200 störf við álverið og líklega annað eins af afleiddum störfum. Hér er því trúlega um eitt stærsta byggðamál að ræða fyrir Vestlendinga allt frá árinu 1998 þegar álverið var reist. Það gekk ekki hávaðalaust fyrir sig eins og hv. þingmenn muna kannski, en núverandi stjórnarflokkar börðust mjög fyrir því og það er ekki á mönnum að heyra í dag að þeir sjái eftir því að þetta glæsilega fyrirtæki hafi risið á sínum tíma á Grundartanga.

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson talaði um að vegna breytinganna á lögunum værum við að fara að hækka raforkureikning Reykvíkinga og við framsóknarmenn bærum sérstaka ábyrgð þar sem við stöndum í forustu R-listans, ásamt reyndar fleiri flokkum sem sæti eiga á Alþingi og ég held að okkur gangi ágætlega í því samstarfi. Ég tel að sá málflutningur sem hv. þingmaður viðhafði sé að nokkru leyti á misskilningi byggður vegna þess að stærstu orkufyrirtæki landsins, það kom mjög skýrt fram á sameiginlegum fundi iðnaðarnefndar og efnahags- og viðskiptanefndar, við fjölluðum sameiginlega um málið, með forsvarsmönnum Landsvirkjunar, Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur að trúlega munu fyrirtækin ekki greiða tekjuskatt næstu 7–10 árin í það minnsta vegna mikilla framkvæmda í tengslum við stækkun álversins á Grundartanga og mikilla framkvæmda Landsvirkjunar vegna álversins á Austurlandi.

Miðað við hvernig hv. þingmaður lagði upp mál sitt mátti á honum skilja að fljótlega yrði að hækka raforkureikning á íbúum höfuðborgarsvæðisins vegna breytinganna. Það er ekki alls kostar rétt. Það kom mjög skýrt fram hjá forustumönnum fyrirtækjanna að þetta mun ekki hafa nein áhrif á rekstur fyrirtækjanna næstu 7–10 árin í það minnsta. Það er staðreynd málsins. Svo geta menn deilt um hvað gerist eftir 7 eða 10 ár. Við höfum sem betur fer hagræðingarkröfu í nýjum raforkulögum sem gera ráð fyrir að við reynum að reka raforkukerfi landsmanna með hagkvæmni að leiðarljósi þannig að það verði ekki dýrt í rekstri og muni skila sér þar af leiðandi í lægra raforkuverði til landsmanna allra og fyrirtækja í landinu.

Vegna þeirrar umræðu sem átti sér stað áðan, m.a. um hækkun á raforkuverði á landsbyggðinni, vil ég halda því til haga að það mál er að sjálfsögðu til skoðunar, það hefur margoft komið fram. (Gripið fram í.) En hv. þingmenn gleyma því, enda hafa þeir ekki fram að þessum degi, alla vega hef ég ekki heyrt það að hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar sé mikið umhugað um atvinnulíf á landsbyggðinni, en það er staðreynd málsins að raforkuverð til fyrirtækja á landsbyggðinni hefur lækkað í kjölfar nýrra raforkulagabreytinga. Það þykir hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar eins og hv. þm. Jóni Bjarnasyni algjört aukaatriði því umhverfi atvinnulífsins á landsbyggðinni er ekkert aðalatriði í þessu samhengi. (Gripið fram í.)

Ef ég mætti klára mál mitt, hæstv. forseti, vil ég segja að þar sem menn tengja þessa breytingu á lögunum nýskipuðum raforkulögum, þá mun sú breyting sem stjórnarflokkarnir hafa lagt til varðandi markaðsvæðingu á raforkukerfinu og hagræðingu því samfara hafa góð áhrif til lengri tíma litið. Það er hagræðingarkrafa í rekstri fyrirtækjanna sem mun skila sér í lægra raforkuverði til landsmanna til lengri tíma litið.

Við horfðum á það árin 1998–2000 í umræðum um einkavæðingu bankanna að það væri rosalegt glapræði að ganga þá vegferð til enda. Bankarnir greiddu engan tekjuskatt í þá daga til ríkisins. Hvað ætli þeir greiði í ár? 15–20 milljarða? Því miður var stór hluti af stjórnarandstöðunni á móti þeirri framför sem þá átti sér stað. Bankamarkaðurinn í dag og fjármálamarkaðurinn er sem betur fer einn af veigameiri þáttum í undirstöðuatvinnugreinum landsbyggðarinnar ásamt sjávarútvegi og öðrum iðnaði. Ég vil halda því til haga að þeir voru á móti þeirri breytingu sem átti sér stað á bankakerfinu þá, rétt eins og margir hverjir stjórnarandstæðingar eru á móti þeim breytingum sem nú eiga sér stað á raforkukerfi landsmanna.

Sagan mun náttúrlega dæma okkur í þeim efnum. Sagan hefur dæmt okkur hvað varðar einkavæðingu á ríkisbönkunum. Trúlega hefur aldrei verið eins mikill kraftur í íslensku viðskiptalífi og í dag. Aldrei hefur íslenskur almenningur notið eins lágra vaxta, hvort sem það er á húsnæðismarkaði eða á öðrum sviðum, þar ríkir gríðarleg samkeppni. Það voru engir hamingjudagar þegar ríkisbankarnir voru og hétu og margir hv. alþingismenn sátu þar í ráðum og stjórnum, svo heppilegt sem það var.

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa því yfir að ég styð að frumvarpið verði gert að lögum frá hv. Alþingi. Hér er um framfaraspor að ræða. Við erum að jafna mismun á milli einkaaðila og opinberra aðila á þessum markaði. Við getum ekki búið svo um hnútana að einkafyrirtæki á raforkumarkaði, raforkubændurnir, standi verr að vígi en opinberir aðilar, ríki eða sveitarfélög. Slíkt gengur ekki.