131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Kostnaður af viðhaldi þjóðvega.

764. mál
[11:34]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Herra forseti. Það er alkunna að þungaflutningar eru u.þ.b. að flytjast alfarið á þjóðvegakerfi landsins. Ökumenn sem leið eiga um þjóðvegina kannast örugglega margir við óhugnaðinn sem fylgir því að mæta stórum flutningabílum, jafnvel með tengivagn á þröngum og krókóttum vegi. Vegirnir eru ekki byggðir fyrir það álag sem fylgir þessum mikla þunga, þeir missíga og slitna miklu fyrr en áður. Það er ógnvænlegt að sjá sveifluna sem er á stórum bílum þegar þeir aka um þau svæði þar sem vegurinn er eins og bylgjótt vatnsyfirborð. Það geta allir ímyndað sér hættuna sem er á ferðinni þegar tveir háir bílar mætast á slíkum vegarkafla. Þá er það tilviljun sem ræður hvort bílarnir sveiflast hvor frá öðrum eða í áttina hvor að öðrum, en ef svo hittist á er hætta á að þeir skelli saman. Þá er stórslys líklegt. Bílveltur hafa auk þess verið talsvert tíðar á vegarköflum þar sem missig er mikið og vegkantar lélegir.

Það virðist augljóst að þróun þungaflutninga kallar á umtalsverða aukningu á viðhaldi vega og raunin er sú að á heilu landsvæðunum eru vegir taldir u.þ.b. að eyðileggjast vegna þessa. Má þar nefna veginn frá Brú í Hrútafirði til Hólmavíkur sem er ekki fyrir þetta búinn og stórhættulegur. Vegurinn á milli Reykjavíkur og Norðurlands vestra er á sama hátt víða mjög lélegur vegna missigs og er stórhættulegur.

Ég spyr því hæstv. samgönguráðherra:

Hefur þörf fyrir stóraukið viðhald þjóðvega á næstu árum vegna aukinna þungaflutninga verið metin? Ef svo er, hver er áætlaður kostnaður? Ef svo er ekki, er það fyrirhugað?