131. löggjafarþing — 123. fundur,  4. maí 2005.

Fjárframlög til Mannréttindaskrifstofu Íslands.

[13:37]

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir kröfu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um að það frumvarp sem formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa lagt fram á Alþingi verði rætt. Það er þinginu til vansa hvernig staðið hefur verið að fjárveitingu til Mannréttindaskrifstofu Íslands og vísvitandi reynt að skerða möguleika hennar til starfsemi. Þetta er mjög leiðinleg og ljót meðferð á samþykkt sem Alþingi gerði á miklum hátíðisdegi árið 1994 á Þingvöllum. Ég held að við þyrftum áður en þingið lýkur störfum í næstu viku að taka frumvarpið, sem er fyrst og fremst um 10 millj. kr. fjárveitingu til Mannréttindaskrifstofu Íslands, það er ekki flóknara en svo, að við þyrftum að taka það til umræðu og afgreiðslu í þinginu og reyna þannig að rétta hlut þingsins hvað varðar framlög til mannréttindamála og standa betur að verki en við höfum gert.