131. löggjafarþing — 123. fundur,  4. maí 2005.

Stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegs.

583. mál
[17:21]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það hafa farið fram nokkuð ítarlegar umræður um þetta mál sem er á dagskránni, þ.e. breytingar á lögum um stofnun hlutafélags um síldarútvegsnefnd og stofnun sjóða í þágu síldarútvegsins.

Þetta er að sumu leyti svolítið undarlegt mál. Það er svolítið skrýtið að Alþingi skuli hafa það hlutverk að vera að breyta reglum í félagi sem í raun og veru er á forræði aðila úti í samfélaginu. Í sjálfu sér er kannski ekkert við því að gera í þetta skiptið. Ég taldi þó að ástæða hefði verið til að skoða það að Alþingi hefði með einhverjum hætti leyst úr þessu þannig að málið kæmi ekki inn aftur síðar. Það gæti auðveldlega gert það vegna þess að það eru sömu rök fyrir því að koma með nýjar breytingar eins og með þessa sem er að koma núna inn. Þetta er umhugsunarefni. Síðan geta menn auðvitað haft allar skoðanir á því hvort eigi að víkka út þetta hlutverk. Þegar maður gáir að því að þessi sjóður er á forræði þeirra sem eru í útveginum og að Alþingi ætlar í raun og veru ekki að skipta sér af stjórn sjóðsins og hefur ekki til þess nein tæki er það líka kannski svolítið undarlegt að Alþingi segi til um það hvernig eigi að nýta þessa fjármuni út í hörgul.

Því verður auðvitað ekki neitað að Alþingi hefur afar stórt hlutverk í stjórn fiskveiða og nýtingu fiskstofnanna við landið og ekki hefur það verið minna hvað varðar nýtingu á ýmsum síldarstofnum en hvað varðar nýtingu á öðrum stofnum við landið. Þess vegna er full ástæða til að hér fari fram umræða af því tagi sem verið hefur í dag og það er líka ástæða til þess við þessa umræðu að rifja svolítið upp þá stöðu sem er uppi. Þeir aðilar sem stjórna núna þeim sjóði sem hér er um að tala eru að einhverju leyti þeir sem nýta núna síldarstofnana þó að það sé ekki algilt. Þetta voru ekki nákvæmlega sömu fyrirtækin sem voru að veiða síld og þau sem voru að vinna hana á sínum tíma og voru þess vegna fyrirsvarsmenn þeirra eigna sem hér eiga hlut að máli.

Alþingi Íslendinga ákvað, ætli það hafi ekki verið árið 1997, að færa þeim sem höfðu þá verið að veiða síld við Ísland norsk-íslenska síldarstofninn að gjöf, alfarið. Það er kannski hægt að segja að það sé í líkingu við það sem hefur verið gert með aðra stofna í landinu, en þó ekki, einfaldlega vegna þess að það er alfarið á vegum ríkisins sem samningar náðust um nýtingu norsk-íslenska síldarstofnsins en ekki vegna þess að einhverjir hafi unnið sér þar inn einhvers konar rétt til veiða, einhverjir útgerðarmenn. Þeir sem höfðu veitt norsk-íslensku síldina áður voru löngu horfnir af vettvangi. Þeir fengu ekki þessi réttindi. Það voru þeir sem voru á staðnum þegar ríkisstjórninni þóknaðist að taka þessa ákvörðun. Það er ekki byrjað að veiða norsk-íslensku síldina aftur fyrr en 1994 og þá er veitt 21 þús. tonn. Mest hefur síðan verið veitt árið 1997 og það voru 220 þús. tonn. Það er akkúrat á þeim árum sem mest var veitt sem úthlutun fór fram.

Það er athyglisvert í því samhengi að skoða hvernig úthlutun veiðiréttar hefur í sumum stofnum við landið orðið þannig að þeir sem fengu úthlutun á sínum tíma eru núna farnir að fá í hendurnar miklu meiri réttindi til veiða en þeir höfðu samkvæmt veiðireynslu á þeim tíma sem úthlutunin fór fram. Það er nokkuð sem var ástæða til að muna eftir, og er, vegna þess að það var aðalröksemdin á sínum tíma fyrir því að útgerðarfyrirtæki á Íslandi ættu að eiga réttinn til að veiða á Íslandsmiðum að þeir hefðu veiðireynslu og ættu að fá úthlutað samkvæmt henni.

Til gamans er hægt að nefna hér t.d. hvernig veiðireynsla í ýsu var þegar henni var úthlutað árið 1991. Þá var aflamarkið 48 þús. tonn. Núna er það aflamark 90 þús. tonn. Hvar skyldi veiðireynslan vera fyrir helmingnum af ýsuveiðinni sem menn hafa réttindi til að veiða í ár? Þeir fá að veiða nákvæmlega helmingi meiri ýsu en þeir höfðu fengið úthlutað út á veiðirétt sinn. Hvar eru þá rökin sem menn höfðu upphaflega? Svona er hægt að telja þessa hluti upp.

Ég nefni þetta hér vegna þess að við erum að tala um síld og öll berum við þá von í brjósti að norsk-íslenska síldin syndi á Íslandsmið. En hvað gerist þá? Þrír stærstu aðilarnir í útgerð á Íslandi í síld eiga helminginn af kvótanum. Þeir fengu honum úthlutað með þeim hætti sem ég lýsti hérna áðan. Þeir væru að fá úthlutað margfalt því sem þá var til skiptanna.

(Forseti (ÞBack): Telur hv. þingmaður að hann eigi langt eftir af ræðu sinni?)

Hæstv. forseti. Þessi ræða gæti orðið ævintýralega löng ef ég mundi halda hana alla. Til að greiða fyrir þingstörfum hafði ég hugsað mér, af því að ég veit að hér á að hætta um hálfsexleytið og af því að ég komst ekki að í ræðustóli fyrr en þetta, að geyma mér það sem ég hefði helst viljað segja um þessi málefni, líka vegna þess að félagar mínar hafa farið mjög vandlega yfir málið til síðari tíma. Ég mun ekki láta standa á mér að ljúka þessari umræðu.

Vill hæstv. forseti að ég ljúki máli mínu þá núna?

(Forseti (ÞBack): Hv. þingmaður ræður því hvort hann gerir hlé á ræðu sinni núna og heldur henni áfram ef málinu er frestað og tekið upp eitthvað síðar, hvort hann lýkur ræðu sinni þá, eða hvort hann óskar eftir að ljúka ræðu sinni núna.)

Hæstv. forseti. Ætli ég hafi ekki bara þann háttinn á að ég hugsi málið þangað til kemur að 3. umr. og ljúki hér máli mínu.