131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Stuðningur við búvöruframleiðslu.

733. mál
[11:35]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég vil beina eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. landbúnaðarráðherra um stuðning við búvöruframleiðslu en hún hljóðar svo:

Hvert er viðhorf ráðherra til þess að bændur skuli telja hagkvæmt að standa utan styrkjakerfis landbúnaðarins og framleiða osta fyrir innanlandsmarkað? Þetta er mjög áhugaverð spurning, sérstaklega í ljósi þess að margir milljarðar fara í styrki til bænda og menn telja hagkvæmara að standa utan við slíkt kerfi. Þetta er óskiljanlegt en sýnir hins vegar að kerfið sem búið hefur verið til er einfaldlega ónýtt. Það þarf að endurskoða. Mér finnst það mikill áfellisdómur yfir þessu kerfi, sem í fara mörg þúsund milljónir af skattfé almennings, að menn sem ætla að framleiða mjólk telji borga sig að standa fyrir utan það. Þetta vekur upp spurningar um hvort ekki þurfi að skoða kerfið algerlega frá grunni.

Ég beini síðan annarri spurningu að hæstv. ráðherra en hún hljóðar svo:

Hyggst ráðherra setja eitthvert hámark á beingreiðslur til einstakra mjólkurframleiðenda? Þessi spurning skiptir verulega miklu máli vegna þess að það eru greiddar 40 kr. með hverjum lítra og er ekkert hámark á heildargreiðslunni. Dæmi er um að bú ætli sér að framleiða allt að 1 milljón lítra. Það þýðir að 40 millj. kr. af skattfé renna til eins bús. Þetta bú getur jafnvel verið með láglaunafólk í vinnu. Við sem viljum landbúnaðinum vel og viljum halda áfram að styrkja búsetu í hinum dreifðu byggðum verðum að endurskoða þetta kerfi. Ég tel að það verði í raun að setja eitthvert hámark. Mér finnst að skoða ætti hvort hámarkið ætti að vera í kringum 150 þús. lítra eða 200 þús. lítra. Ég velti þessum tölum upp en síðan yrði bændum einfaldlega veitt framleiðslufrelsi, að menn geti lagt inn þá mjólk sem er umfram 150 þús. lítra og séu ekki með styrkina í 40 millj. kr. eða ef menn fara í að framleiða 2 millj. lítra árlega þá séu menn með 80 millj. kr. í styrk til einstakra búa. Almenningur mun ekki sætta sig við það og við verðum að útbúa einhvers konar kerfi sem almenningur hefur hag af sem og hinar dreifðu byggðir. Ég vonast til þess að hæstv. landbúnaðarráðherra komi með einhver svör, sérstaklega við annarri spurningu minni, um hámark á beingreiðslur.