131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[15:56]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nálgun hv. þm. Hjálmars Árnasonar á þessu máli er fráleit. Að leggja að líkum fingrafar á innbrotsstað og hleranir á samskiptum fólks á sér enga stoð, er fráleit samlíking og dregur ekkert fram í þessu máli nema það hve gróflega er gengið gegn friðhelgi einkalífsins í 9. gr. frumvarpsins. Þar er lagt til að fjarskiptafyrirtæki verði gert skylt að veita lögreglu upplýsingar um hver sé skráður eigandi símanúmers og/eða notandi vistfangs, svokallaðrar IP-tölu. Þetta ákvæði brýtur að mínu mati gróflega gegn friðhelgi einkalífsins og er algjörlega fráleitt að færa í íslensk lög, m.a. með hliðsjón af umsögn Samtaka atvinnulífsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ljóst er að engar samræmdar reglur eru í Evrópu á þessu sviði og lagabreytingin gengur augljóslega langt inn á svið persónuverndar og einkalífsverndar. Samtökin vara við því að settar verði sérstakar íslenskar reglur um netaðgang „lögbærra yfirvalda“ íslenskra sem ekki eru hluti af alþjóðlegum skuldbindingum.“ — Því spyr ég hv. þingmann Hjálmar Árnason, framsögumann meiri hlutans: Hvað hastar á það að íslensk stjórnvöld hafi forgöngu að því að ganga svo gróflega gegn friðhelgi einkalífsins eins og hér er um að ræða, þegar því fer svo fjarri að alþjóðlegar reglur eða alþjóðlegar hliðstæður kalli á að það verði gert til samræmis við það að elta uppi glæpamenn og níðinga á netinu? Þetta á sér enga stoð og því hlýtur hv. þingmaður að þurfa að svara því skýrt af hverju í ósköpunum íslenskum stjórnvöldum finnist liggja svo á að innleiða slík stóra bróður ákvæði hlerana og brota gegn friðhelgi einkalífsins eins og hér um ræðir í 9. gr. frumvarpsins.