131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[17:16]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir hefur farið mjög vandlega yfir þetta mál, gert það sérlega vel og gert grein fyrir afstöðu okkar þingmanna Samfylkingarinnar og minni hlutans í samgöngunefnd, en mig langar aðeins vegna málsins að leggja til þess nokkur orð eða ákveðnar hugmyndir.

Ég vil strax í upphafi segja að ég er ekki sérfræðingur í þeim tæknilegu útfærslum hvað menn geta gert, hvað menn geta ekki gert og hvernig menn geta leyst úr því. En eins og mér er kynnt þetta mál er hið svokallaða IP-númer þess eðlis að hafi menn vitneskju um hver eigi þetta númer geti menn aflað upplýsinga um hvort viðkomandi hafi verið á tiltekinni heimasíðu og á einni frekar en annarri. Þetta er ekkert ósvipað því ef viðkomandi einstaklingur hefði einhverja flögu eða eitthvað í jakkanum sínum eða í öxlinni þannig að hægt væri að fylgjast með honum hvert hann færi í hinu daglega lífi nema í þessu tilviki erum við að tala um netlífið, þ.e. að menn geti haft nákvæmar upplýsingar um hvert menn fara og þannig skil ég þetta tiltekna mál. Því má segja sem svo að miklir persónulegir hagsmunir séu í því fólgnir og verið sé að vega að friðhelgi einkalífsins þegar ákvæði, eins og hér er hugmyndin um að setja í lög, eru sett inn þess efnis að það sé nægilegt fyrir lögregluna í landinu að hringja og óska eftir þessum upplýsingum án þess í reynd að þurfa að leggja fram nein sérstök rök í málinu.

Ég man þá tíð þegar ég tengdist rannsóknum á opinberum málum tók það ekki nema einn eða tvo klukkutíma alla jafna að fá dómsúrskurð í einföldum málum. Því hlýtur það að vekja upp hugrenningar hvað það er sem gerir það að verkum að hraðinn og krafan um þennan mikla hraða sé svona ofboðsleg því eins og hér hefur komið fram fer IP-númerið ekki nokkurn skapaðan hlut. Hægt er að rekja það áfram þó málið tefjist um klukkutíma eða tvo. Og spurningin sem hlýtur að vaka yfir þessari umræðu er hvort réttlætanlegt sé að ríkisvaldið hafi þann möguleika að taka einfaldlega upp símann, hringja í starfsmann fjarskiptafyrirtækis og kalla eftir slíkum upplýsingum sem í reynd gerir það að verkum að hægt er að kanna mjög persónulega hagi manna í gegnum það hvernig þeir hegða sér á netinu.

Það er ekki þannig að eðlilegt sé að nálgast löggjöf og annað þess háttar út frá því sjónarmiði að allir séu glæpamenn. En nálgunin í þessu tiltekna máli er sú og þess vegna vil ég leyfa mér að mótmæla því að í þessu felist sérstakir almannahagsmunir, að hér takist á vernd eða friðhelgi einkalífsins annars vegar og almannahagsmunir hins vegar vegna þess að almannahagsmunirnir liggja ekki endilega í því að það muni klukkutíma eða tveimur hvort menn geti fengið þessar upplýsingar og þeir liggja heldur ekki í því að hægt verði að kalla slíkar upplýsingar fram án nokkurs rökstuðnings, því eins og málið er lagt upp er ekki gerð nein krafa um alvarleika brots. Fyrst og fremst er verið að kalla eftir þessu númeri í þágu opinbers máls. Málið getur á sama hátt verið brot á umferðarlögum. Það er ekki er hægt að útiloka að hægt sé að kalla eftir því. Hver er staða starfsmanna fjarskiptafyrirtækja sem fá upphringingu frá lögreglunni þar sem óskað er þessa númers vegna rannsóknar í þágu opinbers máls? Í framhaldi af því verður þeim einfaldlega skylt að afhenda það án nokkurrar þekkingar eða upplýsingar um hvers eðlis þessi mál eru. Ég lít þess vegna svo á að hér sé farið inn á mjög alvarlega braut og vil leyfa mér að taka undir hluta af því sem hv. síðasti ræðumaður sagði að hugsanlega eru þeir sem stóðu fyrir árásunum á tvíburaturnana í New York árið 2001 hinir raunverulegu sigurvegarar þegar við erum farin að setja reglur af þessum toga í löggjöfina. Kannski eru það þeir sem ýta undir það að ríkisvaldið hefur talið sér heimilt að gera nánast hvað sem er í nafni tiltekinna ótilgreindra hagsmuna.

Hv. þm. Hjálmar Árnason sem talaði fyrir þessu máli áðan sagði að það væri mikilvægt að geta náð barnaníðingum og eiturlyfjasölum. Þessir tveir tilteknu hópar brotamanna voru sérstaklega nefndir. Ég get tekið heils hugar undir það en ég held að það mundi ekki breyta neinu þó að gera þyrfti kröfu um dómsúrskurð í máli og það tæki einn eða tvo klukkutíma. Við skulum heldur ekki gleyma því að brotin sem þessir aðilar kunna hugsanlega að hafa framið eru ekki framin í tölvunni heldur er hugsanlegt að finna megi óbeinar sannanir í tölvunni. Ekki það að brotin eigi sér þar sérstaklega stað og hún sé einhver brotavettvangur. Menn senda ekki eiturlyf eftir rásum internetsins. Þetta eru samskipti sem eiga sér stað sem menn eru að komast í. Brot sem barnaníðingar fremja eru ekki á internetinu. Hugsanlega kunna að vera einhverjar sannanir þar sem hægt er að nota. Þess vegna er miklu eðlilegra að gera þá kröfu að leita þurfi eftir dómsúrskurði. Það er svo miklu eðlilegra og ég sé ekki þá hagsmuni sem settir eru í uppnám. Það er kannski ástæðan fyrir því að maður situr eftir með dálítið óbragð í munninum og spyr: Hvar eru almannahagsmunirnir? Þeir hafa ekki komið fram, þeir hafa ekki verið kallaðir fram í umræðunni og þau rök sem hér hafa verið sett fram eru allt að því rök sem jafnvel ekki gengju í leikhúsi fáránleikans. Þau eru hálfsúrrealísk. Það hlýtur að vera eðlileg krafa til þingmanna og þeirra sem lögin setja að þeir rökstyðji mjög vandlega nauðsyn þess að fara þessa tilteknu leið í umræddu máli.

Án þess að ég ætli að fara að endurtaka þá umræðu sem hér hefur farið fram um samkeppnismál þá töluðu menn mjög grimmt um það í þeirri umræðu, þ.e. þingmenn stjórnarliðsins, að vernda þyrfti friðhelgi einkalífsins þegar kæmi að brotum sem eru samsæri gegn almenningi, samsæri gegn neytendum þar sem jafnvel brot eins og í olíumálinu geta lotið að hagsmunum sem menn hafa metið frá 5 milljörðum upp í 80 hvernig sem menn setja það upp. En þar var ekki einu sinni talið heimilt og réttlætanlegt að gera húsleit á heimilum þeirra sem hugsanlega kynnu að hafa framið þessi brot. En í tilviki þess frumvarps sem við ræðum nú er hægt að fara inn bara í þágu rannsóknar opinbers máls og óska eftir þessum upplýsingum jafnvel þó að um umferðarlagabrot sé að ræða því að engar kvaðir eru settar á það hvaða brot þurfi að búa að baki þeirri rannsókn sem hafin er. Eftir stendur, virðulegi forseti, að við erum farin að sitja uppi með það aftur og aftur að menn eru tilbúnir að ganga alveg óheyrilega langt í tilteknum tilvikum að fara gegn friðhelgi einkalífsins, en þegar hagsmunirnir eru aðrir og aðrir sem hugsanlega kunna að þola það, til að mynda forstjórar í fyrirtækjum, t.d. í brotum í samkeppnismálum þá er þetta allt saman ómögulegt.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Pétri Blöndal þegar hann segist vera andvígur 9. gr. og hann vakti einmitt athygli á því að hann hefði líka verið andvígur hinu. Það er þó samhengi í því sem hann er að segja, hann er samkvæmur sjálfum sér. En ég skil ekki þá þingmenn sem geta fyrir hádegi rökstutt eitt og eftir hádegi eru allt aðrar röksemdir. Þetta verður allt saman svo ótrúverðugt og eins og hér hefur verið rakið mjög vandlega, þetta gengur einfaldlega ekki upp.

Ég vildi, virðulegi forseti, aðeins leggja nokkur sjónarmið inn í þá umræðu sem hér hefur farið fram og tel í raun og veru að við séum komin á mjög alvarlega braut þegar við leyfum okkur að setja svona ákvæði í lög án þess að geta sýnt fram á með nokkrum viðunandi hætti að einhverjir almannahagsmunir séu í uppnámi. Það er það alvarlega í málinu. Og hvort rannsóknin tefjist um klukkutíma eða tvo — ef nægilegar röksemdir eru fyrir því að fá dómsúrskurð, þá get ég ekki áttað mig á því hvaða tjón kann að verða þótt þessi bið komi til.

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins leggja nokkur orð í belg um 9. gr. sem mér þykir hreint út sagt alveg fráleit og vona að við eigum ekki eftir að sjá fleiri svona uppákomur í bráð. Ég geri fastlega ráð fyrir að þeir sem verða fyrir þessu, jafnvel saklausir borgarar því að þetta eru ekki allt saman brotamenn og glæpamenn sem eru á ferðinni, muni láta á þetta ákvæði reyna, þeir muni láta á það reyna hvort þetta standist stjórnarskrá og mannréttindasáttmála, sem ég dreg mjög í efa. En kjarni málsins er þessi: Í mínum huga er það þannig að verið er að hleypa mönnum fram hjá dómsúrskurðum og kalla eftir upplýsingum um miklar persónulegar upplýsingar án nokkurs tilefnis í rauninni. Það er niðurstaða mín og eftir stendur spurningin: Hvernig geta menn látið sér til hugar koma að fara þessa leið? Það eru ekki þeir hagsmunir í húfi í þessum efnum, það eru ekki þeir hagsmunir í hættu í þessum efnum. (Gripið fram í: Dómsmálaráðherra vill þetta.) Virðulegi forseti. Það er kallað fram í að hæstv. dómsmálaráðherra vilji þetta. Hann vill nú svo margt og hefur áhuga á svo mörgu og jafnvel því að hervæða þjóðina, mér finnst það því ekki endurspegla almenn viðhorf í málum er varða lögreglu eða eftirlit með borgaranum þó að hæstv. dómsmálaráðherra hafi einhverja tiltekna skoðun.