132. löggjafarþing — þingsetningarfundur

Varamenn taka þingsæti.

[14:37]
Hlusta

Aldursforseti (Halldór Ásgrímsson):

Þá hafa borist tvö bréf um forföll þingmanna. Hið fyrra er frá Gunnari Birgissyni, 3. þm. Suðvesturkjördæmis, dagsett 26. september sl. og hljóðar svo:

„Þar sem ég hef verið ráðinn bæjarstjóri í Kópavogi til loka yfirstandandi kjörtímabils sveitarstjórnar get ég ekki vegna anna í því starfi tekið sæti á 132. löggjafarþingi sem verður sett 1. október nk. Ég óska þess vegna eftir leyfi frá þingstörfum án launa frá þingsetningardegi til 1. júní á næsta ári og að 1. varamaður á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, Sigurrós Þorgrímsdóttir stjórnmálafræðingur, Kópavogi, taki sæti mitt á Alþingi þann tíma.

Virðingarfyllst,

Gunnar Birgisson, 3. þm. Suðvest.“

Sigurrós Þorgrímsdóttir hefur áður tekið sæti á Alþingi á þessu kjörtímabili.

Samkvæmt bréfi þessu liggur fyrir að Sigurrós Þorgrímsdóttir mun sitja allt þetta þing eins og starfsáætlun þess er úr garði gerð. Ég býð hana velkomna til þingstarfa í vetur.

Síðara bréfið er frá Þuríði Backman, 10. þm. Norðaust., dagsett 28. september sl., og hljóðar svo:

„Þar sem ég er á förum til útlanda í erindum Alþingis og get ekki verið viðstödd þingsetningu, né heldur sótt þingfundi nokkra daga, óska ég eftir því, með vísun til 2. mgr. 53. gr. þingskapa, að 1. varaþingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi, Hlynur Hallsson myndlistarmaður, Akureyri, taki sæti mitt á Alþingi á meðan.

Virðingarfyllst,

Þuríður Backman, 10. þm. Norðaust.“

Hlynur Hallsson hefur áður tekið sæti á Alþingi og er hann boðinn velkominn til starfa á ný.