132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:23]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Enn einu sinni er athyglisvert að fylgjast með umræðum um fjárlagafrumvarp. Enn einu sinni kemur stjórnarmeirihlutinn með fjárlagafrumvarp sem því miður er ekki hægt að taka mark á. Enn einu sinni falla menn í gryfju sýndarveruleikans.

Frú forseti. Ég hafði trú á því að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson mundi koma hér og færa umræðuna upp á örlítið hærra plan. Hv. þingmaður hefur oft leikið það hlutverk í umræðum að koma hér með aðvörunarorð. Og út af fyrir sig má segja að ekki hafi aðvörunarorðin skort í ræðu hv. þingmanns en því miður voru ábendingar hans eins og úr öfugri átt.

Hv. þingmaður talaði um að ríkisfjármálin skiptu engu máli, þau væru ekkert vandamál. Tekur þar af leiðandi undir sönginn um að ríkisstjórnin þurfi ekkert að hafa áhyggjur af því sem er að gerast í hagkerfinu, það komi líklega ríkisstjórninni ekkert við. Hv. þingmaður sleppti að vísu úr ræðu sinni þeim mikla kafla sem við höfum oft heyrt, að Seðlabankinn væri höfuðvandamál í efnahagslífinu. Þegar hv. þingmaður sagði að engu máli skipti þó að enginn afgangur yrði á ríkissjóði, þá sagði hann í raun og veru: Þá verður Seðlabankinn að sjá um þetta mál.

Hvaða aðferðir, hv. þingmaður, hefur Seðlabankinn til þess að taka á málinu? Hann hefur aðeins eina leið, og hver er hún? Að hækka stýrivexti. Og hver eru áhrifin? Hv. þingmaður þekkir það mjög vel. Hann varaði við því að það mætti ekki gerast. Hvernig stendur þá á því að tengingin hjá hv. þingmanni er ekki betri en svo að hann áttar sig ekki á að þarna eru tengsl á milli, að þarna skiptir öllu máli að Seðlabankinn og stjórnvöld séu í takt, þau séu í takt að reyna að ná þeim markmiðum sem mér heyrðist að hv. þingmaður vildi ná fram. Og það er hárrétt hjá hv. þingmanni að ef ekkert verður að gert í eitt ár, þ.e. á tíma þess fjárlagafrumvarps sem við nú ræðum, þá er mikil hætta á að skellurinn verði miklu, miklu verri. Þetta er nákvæmlega það sama og við flest höfum verið að reyna að segja í stjórnarandstöðunni og allir þeir aðilar, hefur mér heyrst, á markaðnum sem hafa skipt sér af fjárlagafrumvarpinu hafa tekið undir þetta nema stjórnarliðarnir, sem tala að vísu nokkuð í kross því að hæstv. fjármálaráðherra segir þó að það skipti verulegu máli að afgangur sé á fjárlögum. Telur aðhaldsstigið nægjanlegt, er einn um þá skoðun að vísu, en hann talar þó í þá áttina.

En hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, nei, það skiptir bara engu máli hvernig staðið er að málum í ríkisrekstrinum. Þetta segir okkur auðvitað ýmislegt um hvernig á því stendur að við náum aldrei nokkrum árangri í því að gera alvörufjárlög í landinu. Ef þetta er stefna meiri hluta fjárlaganefndar skilur maður vel að fjárlaganefndin hafi aldrei nokkurn tíma lyft litla putta í að sýna neitt aðhald í ríkisrekstrinum. Þá skilur maður líka af hverju Ríkisendurskoðun ár eftir ár í skýrslum sínum um framkvæmd fjárlaga bendir á að ekkert aðhald sé í málunum og það sé algjör lausaganga í ríkisfjármálunum, þ.e. að útgjöldin séu stjórnlaus, aldrei sé tekið á þeim. Þá skilur maður líka af hverju aðvaranir Ríkisendurskoðunar snúast um að það sé á ábyrgð Alþingis að þetta gerist svona ár eftir ár, og það sé verkefni fjárlaganefndar að taka í taumana vegna þess að fjárlögin segja ekkert til um það í rauninni hver útgjöldin eru. Það er hægt að koma hér ár eftir ár með falleg fjárlög, að vísu misjafnlega falleg eins og þau fjárlög sem nú eru, sem auðvitað sýna ekki nægjanlega fegurð. En, frú forseti, ég verð að segja að það skiptir því miður engu máli vegna þess að engin merking virðist vera á bak við plaggið.

Ekkert er gert í því þó að ár eftir ár séu fjárlagaliðir ýmissa stofnana þannig að uppsafnaður halli sé til fjölda ára og aðrar stofnanir sem safna stöðugt innstæðu. Það er ekkert gert í því að skoða hvernig á þessu standi. Þegar við erum að samþykkja hér fjárlög er fjöldi stofnana í raun búinn með stóran hluta af þeim fjárveitingum sem þær eiga að hafa til þess að reka sig á næsta ári. En aðrar stofnanir hafa hins vegar í sjóði stórar fúlgur til að geta þess vegna aukið útgjöld. Það er ekkert gert í því að skoða þetta, hefur ekki verið gert til fjölda, fjölda ára. Þess vegna kemur Ríkisendurskoðun ár eftir ár með ábendingar um að á þessu verði að taka.

Hún bendir reyndar á það í síðustu skýrslu sinni sem kom nú í sumar að það gæti nú hreinlega verið þannig að það væri í anda stjórnvalda að hafa það svona, það gæti verið að það hentaði hreinlega stjórnvöldum að vera ekkert að breyta þessu vegna þess að með því geti menn lagt fram falleg fjárlög ár eftir ár. En, frú forseti, vegna þess að það hefur nú stundum gerst, og það á síðustu missirum, að ýmsir stjórnarliðar hafa veifað pappírum frá Ríkisendurskoðun og talið þá vera þá markverðustu sem sést hafa er kannski rétt að vitna orðrétt í skýrslu Ríkisendurskoðunar þannig að hv. þingmenn sumir hverjir haldi ekki að þetta sé eingöngu frá fulltrúum Samfylkingarinnar.

Hér segir, með leyfi forseta:

„Reyndar má spyrja hvort stjórnvöld hafi í raun nokkurn áhuga á að breyta því fyrirkomulagi sem verið hefur á framkvæmd fjárlaga þar sem það geti bara hentað ágætlega. Í fjárlögum megi þannig sýna aðhald með ríkisútgjöldum enda þótt ljóst sé að raunveruleg útgjöld verði í mörgum tilvikum hærri.“

Orðrétt tilvitnun í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Skömmu síðar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Strangt aðhald með ríkisfjármálum sé ekki líklegt til vinsælda á vettvangi stjórnmálanna, sérstaklega ekki þegar auknar tekjur ríkissjóðs vegna uppsveiflu í hagkerfinu geri gott betur en að mæta meiri útgjöldum.“

Frú forseti. Það er nákvæmlega þetta sem við sjáum í því fjárlagafrumvarpi sem hér liggur fyrir. Og það er nákvæmlega þannig því miður sem haldið hefur verið um ríkisfjármálin á undanförnum árum, og sérstaklega á þessu ári þegar sveiflan er í þá áttina að fjármagn streymir inn í ríkissjóð. Þá er ekkert aðhald við útgjöldin og það er auðvitað vandamálið. Þess vegna er það áhyggjuefni þegar varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, sem oft hefur talað hér af mikilli ábyrgð um að sýna þurfi aðhald í útgjöldum ríkissjóðs — það er minnisstætt að þegar efnahagslífið var að byrja að rísa aftur eftir síðasta fall var hv. þingmaður hér með miklar ræður um hversu mikilvægt væri að varast þetta þensluástand og reyna að sýna sem mest aðhald — að nú virðist hv. þingmaður genginn í björg og sér ekkert annað en Seðlabankann og vill láta hann um allt, vill láta hann leysa allan vanda. Hef ég grun um að því fylgi eitthvað. Við höfum heyrt einstaka sinnum að hv. þingmaður telji að nú þurfi að breyta hreinlega verðbólgumarkmiðum Seðlabankans og þannig eigi að leysa málið. En hv. þingmaður hefur möguleika til þess seinna í umræðunni að skýra betur út hugmyndir sínar um hvernig við eigum að komast út úr því sem nú blasir við og veldur okkur mörgum áhyggjum og það er eðlilegt að það valdi okkur áhyggjum. Hv. þingmaður sagði það áðan að hann vildi tala um þessi mál af fullri alvöru og ég trúi því og treysti að hv. þingmaður muni gera það í seinni ræðum sínum.

Ég talaði áðan um vinnubrögðin. Það er mjög víða sem við rekumst á að vinnubrögðin eru afar sérstök og óábyrg. Ég nefni eitt lítið dæmi en samt sem áður nokkuð dæmigert. Í sumar heyrðum við að ákveðið hefði verið á einhverri skrifstofu hér í borginni að leggja niður Listdansskólann. Hann er aflagður sisona, það er ekki haft samráð við einn eða neinn og það veit enginn hvað við tekur. Við sjáum svo í fjárlagafrumvarpinu að þeir peningar sem þangað áttu að fara, ja, þeir eru bara nægjanlegir og varla það til þess að keyra þennan skóla áfram það skólaár sem nú er hafið. Trúlega mun það ekki duga vegna þess að ef ég man rétt þá er hali til margra ára á þessari stofnun sem aldrei hefur verið tekið á. Þetta er líklega mesta uppgjör sem maður hefur séð í því að taka á vanda stofnunar en afar einfalt, leggja hann bara niður.

Fleira vekur athygli. Ég sé það í 6. gr., afar sérstakri grein þar sem kemur í ljós að undirbúningskostnaður vegna þess stóra mannvirkis sem á að reisa við austurhöfnina í Reykjavík á að leysast með því að í heimildarákvæði má borga allan kostnaðinn. Ég spyr, frú forseti: Hvernig stendur á því að svo slælega er staðið að málum? Þetta verkefni er búið að undirbúa til fjölda ára og enn situr í fjárlagafrumvarpinu heimild til þess að greiða allan þennan kostnað. Ég spyr: Veit enginn hver þessi kostnaður er? Er þetta bara opinn tékki í allar áttir? Er ekki unnið eftir neinum áætlunum? Hvernig stendur á því að þegar við erum farin að sjá í blöðunum myndir af því hvernig þessi glæsibygging á að líta út þá er ekki einu sinni í fjárlagafrumvarpinu nokkur upphæð um það hvað áætlaður kostnaður verður um þessa byggingu? Nei. Það er áfram haldið með að hafa opinn tékka, heimildarákvæði um að nú skuli allan kostnað greiða. Það eru engar upplýsingar um hvernig hann eigi að skiptast eða í hvaða hæðum hann er.

Ég sagði, hæstv. forseti, að ég ætlaði að nefna örfá dæmi og lítil út af fyrir sig en þau eru táknræn um vinnubrögðin. (Forseti hringir.) Svona á ekki að vinna, hæstv. forseti. (Forseti hringir.) Það á að vinna af ábyrgð að ríkisfjármálum.