132. löggjafarþing — 4. fundur,  6. okt. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[16:21]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lýsti því áðan að við hefðum lagt fram þessar róttæku breytingar á Stjórnarráðinu. Auðvitað fylgir því að farið yrði í gegnum öll ráðuneyti, alla verkferla og allar undirstofnanir þeirra, sem án efa mun fela í sér töluverðar breytingar þar. Við vitum það mætavel, ég og hv. þingmaður Einar Oddur Kristjánsson, að kallað hefur verið eftir því af aðilum atvinnulífsins, verkalýðshreyfingunni og þeim sem hafa verið að gagnrýna ríkisfjármálin að undanförnu, að það sjáist á ríkisútgjöldum að ríkisvaldið sé að gera eitthvað og taka þátt í því í samfélaginu að koma á meiri stöðugleika og styrkja efnahagslífið.

Staða ríkissjóðs er góð. Hér flæðir allt í fjármunum. En þeir flæða líka jafnhratt út. Og það er eitthvað sem við verðum auðvitað að skoða sem virkir þátttakendur í þessu. Grunnbyrjunin, upphafið að því er að fara í gegnum allt Stjórnarráðið, í gegnum ráðuneytin, verkferlana og í gegnum undirstofnanir. Leiðin er ekki að kroppa eitthvað í meint fitulag, eins og hv. þingmaður Einar Oddur Kristjánsson kallaði það hér áðan, með því að kroppa í vaxtabætur hjá ungu fólki með húsnæðisskuldir, bensínstyrk hjá hreyfihömluðum eða aðrar viðlíka aðgerðir. Við hljótum að hafna þeim. Það eru ekki leiðirnar.

Við vonumst auðvitað til þess að ríkisstjórnin sé tilbúin til að fara að vinna raunverulega að því að skapa hér umhverfi til að ráðast í breytingar á Stjórnarráðinu sem eru löngu, löngu tímabærar og yrðu í mun meiri takt við nútímann en raunin er núna.