132. löggjafarþing — 5. fundur,  10. okt. 2005.

Ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

3. mál
[19:59]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Fyrst menn á annað borð tóku ákvörðun um að selja Símann verð ég að láta í ljós þá skoðun mína að mér finnst sem ágætlega hafi tekist til með þá sölu. Ég held að verðið sem fékkst fyrir Símann hafi verið mjög hátt og ekki sýti ég það að þeir sem keyptu voru dugmiklir íslenskir athafnamenn.

Hins vegar var ég því algerlega andsnúinn, eins og minn flokkur Samfylkingin, að dreifikerfið skyldi vera selt með Símanum. Ég er líka algerlega mótfallinn þeim rökum sem hefur verið teflt gegn því viðhorfi okkar að ekki hafi annarra kosta verið völ af tæknilegum orsökum. Ég held að nýjar upplýsingar um framvindu tækninnar hafi sýnt þetta alveg ótvírætt.

Ég held líka að sjálf meðferð sölunnar að þessu sinni hafi tekist vel. Ég held að sú gagnrýni sem stjórnarandstaðan lagði fram á fyrri einkavæðingar hafi haft áhrif. Ég nefni alveg sérstaklega fyrri sölulotu þessa fyrirtækis sem tókst hraksmánarlega illa. Ríkisstjórninni tókst þar ákaflega illa upp og braut margvísleg prinsipp við þann gjörning. En í tengslum við þessa sölu sáust engin skuggaleg verk í gangi. Því miður er að koma á daginn að hægt er að viðhafa slík orð um t.d. sölu bankanna þar sem bæði hæstv. forsætisráðherra og fyrrverandi forsætisráðherra voru með ósæmilegum hætti með puttana í sölunni. Ég rifja það upp, frú forseti, þegar virtur sjálfstæðismaður í einkavæðingarnefnd forsætisráðherra, ríkisstjórnarinnar, Steingrímur Ari Arason, sagði af sér á sínum tíma og vildi ekki tilgreina neinar ástæður. Nú held ég að það liggi alveg ljóst fyrir eftir síðustu upplýsingar um þau efni hvers vegna hann gerði það.

Frú forseti. Þó að ég hafi verið mótfallinn því að dreifikerfið væri selt með þá tel ég að salan hafi að flestu leyti tekist vel. Nú ræðum við það með hvaða hætti á að verja andvirði þessa mikilvæga ríkisfyrirtækis. Hér hafa ýmsar hugmyndir verið ræddar og studdar rökum og margar góðar. Margt af því sem hefur komið fram í umræðunni er jákvætt. Ég er t.d. alveg sérstaklega ánægður með að verja eigi drjúgum hluta af andvirði Símans til þess að byggja nýtt hátæknisjúkrahús. Ég tel að það sé mikilvægt, bæði fyrir þróun heilbrigðiskerfisins og til þess að vel takist að lokum til með sameiningu spítalanna tveggja. Ég geri engar athugasemdir við staðsetningu hátæknisjúkrahússins. Ég held að hæstv. heilbrigðisráðherra hafi valið því prýðilegan stað og að því leyti til er ég á öndverðri skoðun við hv. þingmann og virðulegan formann fjárlaganefndar, Magnús Stefánsson, sem hefur haft uppi hugsanlega léttvægar efasemdir, en eigi að síður efasemdir, um að staðarvalið sé rétt. Að því leyti til treysti ég hæstv. heilbrigðisráðherra betur en formaður fjárlaganefndar virðist gera.

Ég er ekki á því að ekki sé heppilegt að nota þau húsakynni sem hugsanlega er hægt að nota inn í hinn nýja spítala, eins og mér virðast þeir tvílembingar hv. formaður fjárlaganefndar og hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar vera sammála um. Ég treysti hæstv. heilbrigðisráðherra betur en þeir. Þá fannst mér mannsbragur á því hjá hæstv. heilbrigðisráðherra fyrr í dag þegar hann þakkaði hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir það frumkvæði sem hann átti að því að tvinna þetta tvennt saman, annars vegar sölu Símans og hins vegar byggingu hátæknisjúkrahússins. Ég rifja það upp, frú forseti, að þó að hugmyndir hafi að sjálfsögðu verið á kreiki um margra ára skeið um að byggja nýtt hátæknisjúkrahús þá veit ég ekki betur en hv. þm. Kristján L. Möller hafi verið sá fyrsti sem tengdi þetta tvennt. Hann gerði það fyrst í grein í Morgunblaðinu og síðan með þingmáli sem hann flutti um málið og hafi hann þökk fyrir. Hæstv. heilbrigðisráðherra, sá góði drengur, á auðvitað heiður skilið fyrir að þakka honum með þeim hætti sem hann gerði í ræðu sinni í dag. — Ég sé að hv. þm. Ögmundur Jónasson hlær við fót með heldur óviðurkvæmilegum hætti. Ég hafna þeirri ásökun sem felst í þeim hlátri, að sú yfirlýsing hæstv. heilbrigðisráðherra hafi verið dregin upp úr honum með töngum. Það var ekki svo. Þar var um frjálsan og fúsan vilja hæstv. ráðherra að ræða.

Hins vegar er því ekki að leyna að ég tel að það sé hæstv. ríkisstjórn heldur til álösunar þegar maður skoðar með hvaða hætti á að verja fénu að öðru leyti. Þar sjáum við auðvitað kjördæmapotið ná hámarki. Ég man ekki eftir því áður að hafa séð svona háar upphæðir sáldrast í gegnum greipar þeirra sem mest hafa sig í frammi í kjördæmapotinu. Það má segja með vissum hætti að þessi dagur sé eins konar uppskeruhátíð fyrir þá sem berjast harðast og grimmast fyrir sín kjördæmi. Ekki er ég í hópi þeirra, eins og hv. þingmenn landsbyggðarinnar vita, sem hafa verið að agnúast yfir því að fé sé lagt til samgöngubóta á landsbyggðinni, nema síður væri. Ég og hæstv. forsætisráðherra erum til að mynda báðir sammála um nauðsyn og gagnsemd Héðinsfjarðarganga sem hafa þó mjög verið gagnrýnd af kjósendum í okkar ágæta kjördæmi. Ég tel sem sagt að það sé heppilegt og gott að verja fjármagni til að bæta samgöngur á landinu. En við erum auðvitað eldri en tvævetur, við sem í þessum sal sitjum. Og þegar maður skoðar tillögurnar sem hér liggja fyrir um hvernig eigi að verja þessu fjármagni þá sér maður auðvitað að þeir gripu mest í hnakktöskuna heim í héruð til að afla sér atkvæða sem riðu harðast yfir. Maður þarf ekki annað en lesa í hófförin sem liggja um allt yfir þetta frumvarp.

Ég sé það t.d. að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem ég hef reyndar nýlega lýst aðdáun minni á í mínum örlitla miðli, heimasíðu minni, kemur langbest út úr þessu og fær í kringum 3 milljarða þar sem heitir Nýsköpunarsjóður og hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar var að lýsa algeru frati á. Ég vil hins vegar gleðja hæstv. forsætisráðherra með því að hann á í því máli betri stuðningsmann í mér en í hv. þm. Pétri Blöndal, formanni efnahags- og viðskiptanefndar, sem var að lýsa því yfir að þessu fé væri nánast sóað vegna þess að opinberir starfsmenn sem ynnu að nýsköpunarmálum væru svo illa hæfir til þess að fara með það að það væri með engu móti hægt að verja það. Þetta eru orð hv. þm. Péturs H. Blöndal. Ég get ekki annað en tekið undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni sem fór hörðum og verðskulduðum orðum um þau ummæli Péturs H. Blöndals.

Þegar maður kemur að öðrum framsóknarmönnum sér maður að hæstv. landbúnaðarráðherra, varaformaður Framsóknarflokksins, hefur verið óvenjulega ódrjúgur í sókninni til símasilfursins. Hann fær einungis í sinn hlut brú yfir Hvítá, kennda við Bræðratungu. Það er út af fyrir sig vel við hæfi að sú brú skuli kennd við þann stað sem maður Snæfríðar Íslandssólar bjó á, þeirrar sem sagði: Heldur þann versta en þann næstbesta. Mér finnst sem Guðni hafi ekki staðið sig nægilega vel í þessu en sjálfstæðismennirnir voru miklu harðari. Einar K. Guðfinnsson, sem í kjölfar þessarar ákvörðunar hófst til ráðherravegsemdar, verðskuldaðrar líka, sýndi það hins vegar að hann er líklegur til að verða aflakóngur á Vestfjarðamiðum. Hann fékk tvo fína vegi, veginn um Þverárhlíðarfjall og veginn um Arnkötludal. Varaformaður fjárlaganefndar hefur oft verið harðsækinn, sá góði maður, en hann fékk ekki nema vegarspotta á milli Bjarkalundar og Flókalundar og að vísu yfir í fjörð feðra minna, Dýrafjörð. Það má kannski segja að fráfarandi forseti þingsins, Halldór Blöndal, sem margir héldu að væri hættur að sækja á miðin, hafi verið aflakóngur dagsins. Hann sló Einari Oddi algerlega við og fékk veg á milli Öxarfjarðar og Þistilfjarðar og alla leið yfir í Vopnafjörð og meira að segja með sérstökum slitlagsenda við Brunahvammsháls.

Frú forseti. Við sem höfum verið hér í nokkur ár þekkjum þetta. Við þekkjum þessa menn. Við vitum að þetta eru málin sem þeir hafa verið að berjast fyrir árum saman en hvað var það svo sem hv. formaður þingflokks framsóknarmanna, stoð og stytta hæstv. forsætisráðherra, fékk í sinn hlut? Illa sýnist mér sem hæstv. forsætisráðherra hafi þar launað góðan stuðning. Hann fékk ekkert nema Suðurstrandarveg. Ef hæstv. forsætisráðherra vildi vera svo elskulegur að rifja það upp fyrir mér þá mundi hann kannski segja þingheimi það hér á eftir: Í hvaða sinn er hv. þm. Hjálmar Árnason að fá það loforð? Ég gæti svarað því fyrir hæstv. forsætisráðherra: Í fjórða sinn.

Ég kom ungur maður inn á þing árið 1991. Skömmu upp úr því fóru menn að lofa íbúum í því kjördæmi Suðurstrandarvegi. Og ég minnist þess að þegar verið var að véla um síðustu kjördæmabreytingu, og búa til eitt kjördæmi úr Reykjaneskjördæmi hinu gamla og Suðurlandskjördæmi, þá var Suðurstrandarvegi lofað til þess að gera þá breytingu lystugri í munn kjósenda í þeim tveimur kjördæmum. Svo var það svikið strax eftir kosningar og nú kemur hæstv. forsætisráðherra með einn til reiðar, hv. þm. Hjálmar Árnason, og lofar Suðurstrandarvegi enn einu sinni. Nú ætla ég að vísu að leyfa mér þann munað að trúa því að Suðurstrandarvegur verði að veruleika, hið fornkveðna segir jú: Fullreynt er í fjórða sinn.

Ég er líka giskaglaður yfir því, sem þingmaður Reykvíkinga, að leggja eigi drjúga upphæð í Sundabraut. Ég hef hins vegar tekið eftir því að þegar hæstv. forsætisráðherra hefur tjáð sig um það mál, og hefur verið inntur eftir því með hvaða hætti á að ganga frá fjármögnun þeirrar framkvæmdar, hefur hann talað á þann veg að hugsanlega verði vegtollar teknir þar upp. Ég fæ a.m.k. ekki séð það, heyrt og skilið á annan hátt. Mig langar því, af því að svo vel ber í veiði að hæstv. forsætisráðherra heiðrar okkur með nærveru sinni þegar við ræðum þetta merkilega frumvarp hans, að spyrja hann hvort það sé mögulegt að gert sé ráð fyrir því að vegtollar verði í framtíðinni teknir upp til þess að fjármagna afganginn af Sundabrautinni. Það er mikilvægt að það komi fram.

Síðan vil ég segja það hæstv. forsætisráðherra og stjórnarliðum til hróss að ég er mjög ánægður með að þeir skuli hafa tekið ákvörðun um að verja 1 milljarði til málefna geðfatlaðra. Geðfatlaðir eru afgangshópur í samfélaginu sem á ekki nema örfáa góða hugsjónarmenn, eins og hv. þm. Ögmund Jónasson og nokkra í þessum sal, sér til varnar og stuðnings. Þetta er hópur sem hefur ekki mikla þrýstigetu og því hafa þeir oft setið á hakanum. En þetta er þakkarvert, þó að það hafi kannski ekki komið algerlega á óvart. Hæstv. félagsmálaráðherra hefur verið með það í pípunum og hefur verið að boða áætlun um búsetuúrræði fyrir geðfatlaða. Hann boðaði slíka áætlun fyrir tveimur árum og þá biðu menn í ár en hún kom ekki. Loksins kom hún og sannarlega er þar horft til framtíðar en þá vantaði peninga og nú koma þeir þannig að þar er verið að fylla upp í ákveðna holu. Ekki ætla ég að lasta það. En það er eitt sem brennur á mér þegar ég horfi yfir þetta svið, sé hvert peningarnir fara og sé hverjir hafa verið grimmastir í því að fá fjármagn til sinna kjördæma, til sinna umbjóðenda. Þá staldra ég auðvitað við það að hæstv. forsætisráðherra hefur margsinnis sagt að það væri réttlátt að Síminn yrði seldur og andvirðinu veitt aftur til þjóðarinnar, til þeirra sem áttu Símann. Ef það er eitthvert réttlæti í því máli þá hlýtur að koma til álita að sérstaklega verði tekið á þörfum þeirrar kynslóðar sem var á sínum sokkabandsárum, sem var í blóma lífsins, sem byggði þetta land og stóð undir því á meðan Síminn var að vaxa og verða að því verðmæta fyrirtæki sem hann varð. Þetta eru þeir sem núna teljast aldraðir. Ég ætla mér ekki að leggja það til að fjármunir sem verða til við sölu á ríkisfyrirtæki verði settir í að standa undir einhvers konar rekstri á vegum ríkisins eða þjónustu. En þarna er hins vegar verið að verja peningum í framkvæmdir og ég hef talið upp ýmislegt sem mér hefur fundist jákvætt. Ég hef fundið að aðferðum við að dreifa þessum fjármunum og ég velti því fyrir mér: Af hverju er ekki álitleg upphæð sett til aldraðra Íslendinga, til að uppfylla þörf fyrir hjúkrunarheimili fyrir aldraða og dvalarheimili fyrir aldraða? Í skúffu eða á skrifborði hæstv. heilbrigðisráðherra liggja áætlanir um þá þörf til næstu ára. Við vitum það öll að þjóðin er að eldast, okkur fer að fjölga á næstu árum sem þurfum á þessari þjónustu að halda og sennilega höfum við öll í þessum sal átt foreldra sem sannarlega hafa þurft á slíkri þjónustu að halda.

Er einhver skilningur á þessu í frumvarpi hæstv. forsætisráðherra? Nei. Það er ekki. Ég tel ekki, eins og ég hef áður sagt, að hv. þingmenn stjórnarliðsins séu svo illa gerðir að þeir vilji ekki ráðast í sérstakt átak fyrir þennan hóp. Ég held að menn hafi gleymt öldruðum. Ríkisstjórnin gleymdi öldruðum og það er að mínu mati alvarlegt mál. Mér finnst því að við meðferð þessa máls í þinginu eigi menn að skoða þann möguleika að frumvarpinu verði breytt með einhverjum hætti þannig að tekin verði upp sérstök upphæð og hún verði sett til þessa verkefnis. Þá getum við sagt að ákveðnu réttlæti hafi verið fullnægt og mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Kemur það ekki til greina að sérstakt átak verði gert í þessu fyrir hluta af andvirði Símans? Ég ætla að biðja hæstv. forsætisráðherra að gera mér það ekki að koma hér upp og segja að með því að setja peninga hingað og þangað skapist aukið svigrúm í framtíðinni vegna þess að þá þurfi ekki að setja peninga í þau verkefni og þá verði hugsanlega til einhver skerfur sem hægt sé að taka til aldraðra. Ég frábið mér slíkar skýringar. Ég er bara með einfalda spurningu: Kemur það til greina á vegferð þessa máls í gegnum þingið að menn skoði hvort unnt sé að breyta málinu með einhverjum hætti þannig að sérstök fjárveiting fari til þessa málaflokks?