132. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[14:48]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Jú, út af fyrir sig er það gagnrýnisvert í öllum tilfellum þegar farið er fram úr án þess að fyrir því séu heimildir. En í því tilfelli sem hv. þingmaður var að nefna er um uppsafnaðan vanda að ræða sem verið er að leysa, sérstaklega í tilefni af því sem hann spurði um sendiráðin og nauðsynlegt að taka á því á þessum tímapunkti, tel ég. Það hefur hins vegar ekki þensluhvetjandi áhrif.

Hins vegar, það sem hann spyr um ríkisreikninginn þá get ég ekkert sagt til um það eins og sakir standa hver niðurstaðan verður. Hann er að vissu leyti gerður upp á annan hátt en fjárlögin eru. En ég geri mér auðvitað vonir um að lokafjárlögin verði í öllum meginatriðum eins og við leggjum drög að í þessu fjáraukalagafrumvarpi. Það á auðvitað eftir að fara með þetta frumvarp hér í gegnum þingið og nefndina og afgreiða það endanlega þannig að ég get ekki sagt nákvæmlega til um hver niðurstöðutalan verður.