132. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2005.

Afkomutrygging aldraðra og öryrkja.

4. mál
[14:32]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar spurningu hv. þingmanns finnst mér það sýnt að endurskoða þurfi fjárlagafrumvarpið með það fyrir augum að skoða nákvæmlega þennan þátt sem hann nefndi og ég ligg ekkert á þeirri skoðun minni, ef einhver rök eru gegn því þá hef ég ekki séð þau.

Hins vegar getur hv. þingmaður ekki komið hér upp og reynt að þvo hendur sínar af því sem snýr að lífeyrisþegum og öldruðum í Reykjavíkurborg, það er bara einfaldlega ekki hægt. Hv. þingmaður er afskaplega virkur í borgarstjórn eins og við vitum og þekkir vel til og er vel lesinn og getur ekki borið það fyrir sig að hafa ekki getað fylgst með borgarmálum á undanförnum árum. Sú skýring dugar ekki.

Hér erum við að tala um afkomu þessa fólks. Það skiptir ekki máli í hvorn endann litið er, hvort talað er um útgjöld eða tekjur, það segir sig alveg sjálft. Það liggur alveg fyrir og hv. þingmaður veit það að tillögur hafa verið felldar um að lækka slík gjöld á þetta fólk, en það er bara einn anginn.

Hinn anginn er sá að með þeirri lóðaskortsstefnu sem við þekkjum hafa menn beint og óbeint hækkað gjöld á alla borgarbúa en þó kemur það sérstaklega niður á því fólki sem hefur hvað minnst. Og af því að ég veit að hv. þingmaður ber hag þessa fólks fyrir brjósti hefði ég viljað sjá hann beita sér fyrir öðruvísi vinnubrögðum og öðruvísi áherslum þar sem Samfylkingin er í meiri hluta og stýrir. Þarna hefðu Samfylkingin og Vinstri grænir hreint og klárt komið að og getað hjálpað þessu fólki.

Þess vegna ber ég fram þá spurningu: Af hverju er það ekki gert? Því þarna er svo sannarlega hægt að gera hluti sem hjálpa þessu ágæta fólki.