132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Bensínstyrkur öryrkja.

[15:19]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér erum við að tala um hagræðingarkröfuna varðandi bensínstyrkinn og það er rétt sem fram hefur komið að meginþunginn er hjá ellilífeyrisþegum og styrkurinn hefur farið til þeirra sem eiga bíl. Meiningin var að hækka tekjutryggingaraukann um 20% hjá þeim sem eru verst staddir, þannig að það má nú sjá jákvæða hluti líka í þessum breytingum.

En hvað skeði á landsfundi Sjálfstæðisflokksins? Í fyrirspurnatíma sat hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörum með geislabaug og vængi og hengdi allt málið á hæstv. heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson, og gerði enga tilraun til að útskýra málið efnislega fyrir landsfundarfulltrúunum, þvoði hendur sínar af málinu.

Framsóknarmenn eru seinþreyttir til vandræða og við reynum að sýna samstöðu með samstarfsflokknum í viðkvæmum málum þótt okkur finnist það ekki alltaf jafnauðvelt. Við ætlumst til þess sama af forustu samstarfsflokksins. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem viðkvæm mál koma upp en maður er ekki að tjá sig um þau á opinberum vettvangi almennt. Nú tók hins vegar steininn úr og ég vil mótmæla því að málinu sé alfarið ýtt á Jón Kristjánsson, hæstv. heilbrigðisráðherra.

Virðulegur forseti. Í landinu eru ekki tvær ríkisstjórnir. Hér er ein ríkisstjórn. Þannig reynum við framsóknarmenn að haga okkur þó að okkur sé ansi illt í bakinu um þessar mundir.