132. löggjafarþing — 9. fundur,  17. okt. 2005.

Tryggur lágmarkslífeyrir.

6. mál
[17:58]
Hlusta

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem bara hér upp til þess að fagna því að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, talsmaður Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu, tekur undir að þessi mál þurfi að fara í gegnum endurskoðun. Ég tek líka undir það sjónarmið hans að það má ekki vera þannig að skattkerfið og þessar tengingar fæli fólk frá vinnu en þær gera það eins og þetta er í dag. Það er einfaldlega svo að ef fólk þarf einhverra orsaka vegna að bæta við sig vinnu tapar það fyrst út þessum 22 þús. kr. í grunnlífeyri og borgar þar að auki tekjuskatt til viðbótar. Það er hins vegar algjörlega rétt að skerðingin getur farið upp í 85% meðan grunnlífeyririnn eyðist. Þegar því er lokið greiða menn auðvitað bara skattprósentuna 37% eða hvað hún er á hverjum tíma.