132. löggjafarþing — 12. fundur,  20. okt. 2005.

Stjórnarskipunarlög.

19. mál
[11:24]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir markmið þessa frumvarps til stjórnarskipunarlaga um að efla þrígreiningu ríkisvaldsins enda er hægt að fullyrða að henni er verulega áfátt hér á Íslandi þar sem löggjafarvaldið og framkvæmdarvaldið renna með mjög undarlegum og dæmalausum hætti saman. Það ástand hefur versnað stórkostlega á síðustu tíu árum, er óhætt að fullyrða. Í tíð núverandi ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur þetta versnað hrikalega þannig að frumkvæði um málagerð og málafylgju af hálfu þingsins er lítið og hverfandi og allt frumkvæði kemur úr ráðuneytunum. Þaðan koma málin sem eru oft keyrð í gegnum þingið á ógnarhraða, oft illa undirbúin, og þinginu gefst þar lítið tóm. Ég tek undir markmiðið sem hér er mælt fyrir en efast að mörgu leyti um aðferðina sem hér er lögð til.

Ég veit að þetta hefur gefist ágætlega í Noregi þar sem ráðherrar segja tímabundið af sér þingmennsku. Þar er um að ræða stórt þjóðþing þar sem slíkt hefur ekki mikil áhrif. En hér í okkar litla þjóðþingi — burt séð frá því að nú er hinn litli Framsóknarflokkur í ríkisstjórn með fáa þingmenn og þar af leiðandi fáa óbreytta þingmenn vegna þess að helmingurinn af þingflokknum er á ráðherrabekk — mundi það hafa mjög mikil áhrif á þingið á kostnað hinna flokkanna og til hagsbóta fyrir litlu flokkana, dvergflokkana, sem hafa verið notaðir hér sem hækjur í ríkisstjórnum Sjálfstæðisflokksins áratugum saman meira og minna linnulítið. Þetta kæmi þeim fyrst og fremst vel þar sem þingliði þeirra, í þessu tilfelli Framsóknarflokksins, mundi fjölga um helming á kostnað hinna flokkanna sem eru með sinn réttkjörna þinghóp sem er kosinn í þingkosningu. Það er því hægt að halda því fram að þetta væri mjög ósanngjarnt fyrir hina flokkana og ósanngjörn ívilnun fyrir hækju Sjálfstæðisflokksins í hvert sinn eins og þetta hefur verið tíðkað hér á Íslandi.