132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Skipulag ákæruvalds í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar.

[14:26]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umhyggju sem hefur komið fram í minn garð, að mér sé fyrir bestu og það sé heppilegt og það kunni að vera best fyrir mig að segja mig frá þessu máli. En menn hafa ekki þann kost í minni stöðu. Það verða að vera alveg skýrar, lögbundnar skyldur sem varða vanhæfi ráðherra. Menn geta ekki af umhyggjusemi fyrir sjálfum sér eða einhverjum öðrum eða vegna góðra óska þingmanna um velgengni tekið ákvörðun um það að lýsa sig vanhæfa. Það er ekki þannig, lögum er ekki þannig háttað. Okkar stjórnsýslulögum er ekki á þann veg háttað. Það er ekki þannig fyrir ráðherra að þeir séu að velja af matseðli eða geti valið rúsínurnar úr tebollunni. Þeir sitja uppi með allan pakkann og verða að taka ákvarðanir sínar og vega og meta. Ef þeir taka ákvarðanir um að þeir séu vanhæfir þá verða þeir að hafa fyrir því rök og það hefur komið fram í þessum umræðum að menn hér í þingsalnum eða aðrir hafa ekki fundið nein rök fyrir því að ráðherra geti vísað til einhverra málefnalegra sjónarmiða og sagt að hann sé vanhæfur. Það mál liggur ljóst fyrir og umræðan hefur staðfest það. Eins og ég segi, ég þakka þá umhyggju sem fram hefur komið í minn garð, að mér sé heppilegast og það sé best fyrir sjálfan mig og aðra að ég dragi mig í hlé í þessu máli en málið er bara ekki í þeim farvegi.

Varðandi það að skilja á milli rannsóknar og saksóknar í málum þá er það þannig, sérstaklega hvað varðar efnahagsbrotin, að þróunin er alls staðar á þann veg að þessi tengsl séu mikil og náin. Alls staðar í heiminum er verið að færa saman rannsókn og saksókn í málum af þessum toga og ég tel að það þurfi þess vegna alveg sérstök rök hér á landi, í því umhverfi sem við erum, ef við ætlum að fara allt aðra leið að þessu leyti en aðrar þjóðir.