132. löggjafarþing — 13. fundur,  20. okt. 2005.

Hlutur kvenna í sveitarstjórnum.

34. mál
[17:40]
Hlusta

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég flyt tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum. Málið var lagt fyrir á síðasta löggjafarþingi en var ekki rætt þar og er því endurflutt.

Í þingsályktunartillögunni segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að félagsmálaráðherra feli Jafnréttisstofu það verkefni að hrinda af stað aðgerðum í því skyni að efla hlut kvenna í sveitarstjórnum.“

Þingmenn úr öllum flokkum flytja þessa tillögu ásamt þeirri er hér stendur sem er 1. flutningsmaður.

Það er mjög mikilvægt núna í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga að við beitum markvissum aðgerðum til að bæta hlut kvenna í sveitarstjórnum. Ein leið til þess er að fela Jafnréttisstofu, sem býr yfir mikilli þekkingu á stöðu kvenna í samfélaginu, að annast slíkar aðgerðir eins og gert er ráð fyrir í tillögu þessari. Fjárveitingar til Jafnréttisstofu þyrftu að sjálfsögðu að aukast samhliða slíkum aðgerðum.

Sveitarstjórnarkosningar verða haldnar næsta vor og af því tilefni hefur verið umræða um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum. Þrátt fyrir mikla umræðu og átaksverkefni er ljóst að enn vantar mjög mikið upp á að hlutur kvenna í sveitarstjórnum geti talist eðlilegur. Ef við skoðum önnur lönd sjáum við að Ísland situr talsvert mikið eftir miðað við Norðurlöndin. Hlutur kvenna í sveitarstjórnum eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar árið 2002 var 31,1% og var það 3% fjölgun frá kosningunum 1998. Ísland er því með 31,1%, Noregur er með 36%, í Svíþjóð er hlutur kvenna í sveitarstjórnum 42%, í Finnlandi 34% en í Danmörku 27%, þannig að Danirnir eru svartipétur í þessu sambandi á Norðurlöndunum. Þeir eru lægri en Ísland og það þykir nokkuð fréttnæmt í þessu sambandi af því að Ísland hefur verið lægst bæði gagnvart hlut kvenna á þingi og gagnvart hlut kvenna í sveitarstjórnum.

Hlutur kvenna í sveitarstjórnum hefur aukist mjög hægt eins og sjá má af tölulegum upplýsingum. Með svipuðu áframhaldi mun það taka um þrjá áratugi að ná því takmarki að konur verði helmingur sveitarstjórnarmanna, þannig að sú er hér stendur verður eitthvað upp undir áttrætt þegar það verður ef krafturinn verður ekki meiri en þetta.

Virðulegur forseti. Í síðustu alþingiskosningum árið 2003 varð alvarlegt bakslag í hlut kvenna á Alþingi en þá fækkaði konum verulega, eða úr 36,5% við lok kjörtímabilsins á undan í 30,2%. Við erum því með versta hlutfallið á Norðurlöndunum í sambandi við hlut kvenna á þingi. Við erum með rétt rúmlega 30%, Noregur var með 38%, þeim fækkaði eitthvað í síðustu kosningum þar, Svíar eru með 45%, í Finnlandi er þessi tala 37% og líka í Danmörku 37%. Við erum því með tæplega þriðjung þingmanna sem eru konur og er þetta versta hlutfallið á þeim Norðurlöndum sem við berum okkur saman við. Við erum með færri konur hér á þingi en t.d. á Kúbu og Spáni, Kostaríka, Argentínu, Rúanda, Suður-Afríku og Írak. Það þykir nú frétt til næsta bæjar að við á Íslandi séum með lægra hlutfall kvenna á þingi en þau ríki sem ég taldi upp rétt áðan.

Í þessu sambandi vil ég rifja upp ágætisviðtal sem tekið var við nokkrar konur í blaði fyrir ekki mjög löngu síðan. Þar ræddi m.a. hv. þm. Ásta Möller stöðu kvenna í þinginu. Sjálfstæðisflokkurinn lenti í þeirri stöðu að margar konur duttu út í prófkjöri hjá þeim í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Hv. þm. Ásta Möller talaði um sú staða hefði að hluta skýrt rýra uppskeru Sjálfstæðisflokksins í síðustu alþingiskosningum, þ.e. slök útkoma kvenna í prófkjörum hjá Sjálfstæðisflokknum. Það er mjög brýnt að tryggja, virðulegi forseti, að ekki verði sambærilegt bakslag varðandi hlut kvenna í komandi sveitarstjórnarkosningum heldur takist að auka þann hlut verulega. Konur eru í meiri hluta í níu sveitarfélögum en engar konur eru aðalmenn í sjö sveitarfélögum.

Áður hefur verið farið í verkefni með svipað markmið og þessi tillaga gerir ráð fyrir. Á 122. löggjafarþingi 1997–1998 var samþykkt þingsályktunartillaga um aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum almennt. Sú er hér stendur var 1. flutningsmaður þeirrar tillögu. Sú tillaga var samþykkt og í kjölfarið var komið á fót þverpólitískri nefnd á vegum félagsmálaráðuneytisins sem stóð fyrir slíkum aðgerðum í fimm ár. Það verður að segjast eins og er, að árangurinn varð mjög góður í kjölfarið. Hlutur kvenna á þinginu jókst um 10% í alþingiskosningunum árið 1999, m.a. vegna aðgerða nefndarinnar og umræðunnar sem þær aðgerðir sköpuðu innan flokkanna og í samfélaginu á þeim tíma. Ég man t.d. eftir því að hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði opinberlega, í viðtali, að aðgerðir þessarar nefndar hefðu haft góð áhrif, m.a. á gengi hennar í prófkjöri hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjaneskjördæmi. Mér þótti vænt um að konur töluðu um það opinberlega að starf þessarar nefndar hefði skilað sér vel. Skýrslu um störf nefndarinnar er að finna á slóð félagsmálaráðuneytisins.

Í lokaorðum þeirrar skýrslu kemur fram eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Konur eru helmingur þjóðarinnar og það hlýtur því að vera mikið réttlætismál að fleiri konur gefi kost á sér til stjórnmálastarfa. Tilgangurinn er að bæði konur og karlar taki sameiginlega ákvarðanir í stjórnmálum og þar með aukast líkur á að ákvarðanir séu teknar með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. En hvað þarf þá að koma til svo hlutur kvenna í stjórnmálum verði aukinn?

Svörin eru í grófum dráttum þessi:

1. Fleiri konur þurfa að gefa kost á sér til stjórnmálastarfa. Til þess að svo megi verða þarf að auka fræðslu meðal almennings, í fjölmiðlum og í skólum um mikilvægi aukins jafnréttis í stjórnmálum sem annars staðar.

2. Konur þurfa meiri hvatningu en karlar, ef til vill vegna þess að þær hafa færri kvenfyrirmyndir í stjórnmálum en karlar.

3. Það þarf að vera vilji til þess innan stjórnmálaflokkanna að fjölga konum á framboðslistum og þar skipta fyrstu sætin mestu máli.“

Þar sem reynslan af markvissum opinberum aðgerðum til að auka hlut kvenna í stjórnmálum er góð eins og ég hef rakið er rétt að félagsmálaráðuneytið feli Jafnréttisstofu að beita slíkum aðgerðum nú í aðdraganda komandi sveitarstjórnarkosninga og útvegi stofunni fjármagn til aðgerðanna.

Ég vil einnig gera að sérstöku umtalsefni, virðulegur forseti, að í nýlegri grein sem Ingunn H. Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu, og Róbert Ragnarsson, verkefnisstjóri í félagsmálaráðuneytinu, skrifa í síðasta hefti Sveitarstjórnarmála, um áhrif sameiningar og þátt kvenna í sveitarstjórnum, kemur fram að konur virðast ekki endast jafn vel og karlar í sveitarstjórnum. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Könnunin sýndi enn fremur að töluverður munur er á nýliðun eftir kynjum. Nýliðun á meðal kvenkyns sveitarstjórnarfulltrúa milli kosninga 1998–2002 var 62,3% en 41,8% á meðal karlkyns fulltrúa. Þær niðurstöður gefa vísbendingar um að konur sitji að jafnaði skemur í sveitarstjórn en karlar og væri vert að kanna nánar hvað veldur.“

Þetta er hið sama og við höfum séð á öðrum Norðurlöndum. Þar virðist líka tilhneiging til að konur sitji skemur í sveitarstjórnum. Það er að mínu mati skaði af því að þá ná þær ekki eins langt í stjórnmálum, vegna tíðra skiptinga. Ég tel að vert væri að skoða það frekar hvort hægt sé að beita einhvers konar aðgerðum til að styrkja betur konurnar og styðja við bakið á þeim þannig að þær telji sér fært að vera lengur í stjórnmálum en þessar tölur gefa til kynna.

Það er mjög mikilvægt að vilji innan stjórnmálaflokkanna til að auka hlut kvenna aukist og meira verði gert í að styðja við þær konur sem þegar hafa náð árangri á stjórnmálasviðinu, hafa treyst sér til þeirra starfa og vilja starfa í þeim. Í síðustu alþingiskosningum var t.d. hægt að greina á fylginu hvort konur og karlar vildu styðja viðkomandi framboð. Við sjáum það t.d. hjá Framsóknarflokknum að marktækur munur var í fylgi á milli kynja. Það var um 19,1% fylgi meðal kvenna en 16,2% meðal karla. Konur studdu Framsóknarflokkinn marktækt meira en karlarnir og hið sama mátti sjá hjá Samfylkingunni. Samfylkingin átti ágætisstuðning meðal kvenna en síður meðal karla. Þessu var öfugt farið hjá Sjálfstæðisflokknum. Þar var meira fylgi meðal karla en minna meðal kvenna.

Það er alveg ljóst að kyn er breyta í kosningum, það hefur áhrif og kjósendur líta til þess hvort flokkarnir bjóði upp á breiðan hóp frambjóðenda eða ekki. Ég tel mikilvægt að flokkarnir beiti sér frekar heldur en þeir hafa gert í að reyna að jafna kynjamuninn sem hefur verið svo hrópandi í stjórnmálum fram að þessu. Menn sjá að flokkarnir hafa reynt að gera sitt til að koma til móts við þessar niðurstöður, sem greiningin á fylginu sýnir, kynjagreiningin. Það er ástæða til að fagna því.

Ég vil að lokum leyfa mér, virðulegur forseti, að draga það fram að Samfylkingin stofnaði fyrir stuttu kvennasamtök innan sinna raða. Ég fagna því mjög. Ég tel að meðan við höfum ekki náð stöðugleika í hlutfalli kynja í stjórnmálum, sé mikilvægt að innan flokkanna séu einhver samtök, stuðningshópur sem styðji við bakið á konum. Í Framsóknarflokknum höfum við um áratuga skeið verið með heildarsamtök, landssamtök sem heita Landssamband framsóknarkvenna. Sérstaklega hefur verið reynt að styðja við bakið á konum í stjórnmálum. Hið sama má segja um Sjálfstæðisflokkinn, þar hafa verið starfandi virk kvennasamtök og nú ætlar Samfylkingin að fara sömu braut. Þar hafa verið stofnuð kvennasamtök og ég sé sérstaka ástæðu til að óska þeim til hamingju með það.

Ég tel að það sé brýnt og gott hjá Samfylkingunni að gera það. Það gæti haft áhrif hjá þeim eins og hjá öðrum flokkum. Það er ljóst að meðan við höfum ekki náð stöðugleika milli kynjanna í stjórnmálum þá er þörf á sérstökum aðgerðum til að jafna kynjahlutföllin. Það er ekki hægt að líða, virðulegi forseti, að við sem kennum okkur við lýðræði og réttlæti í íslensku samfélagi búum við það árið 2005 að hlutur kvenna sé svo rýr sem tölurnar hafa sýnt. Þriðjungur á þinginu og þriðjungur í sveitarstjórnum er ekki ásættanlegt. Ég vonast til að þessi umræða fái brautargengi í þinginu og vænti þess.