132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Aflaheimildir frá Vestfjörðum.

[14:17]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegur forseti. Það má segja um núverandi fiskveiðistjórnarkerfi að það er langt frá því að vera fullkomið frekar en önnur mannanna verk. Ég er þeirrar skoðunar að gera þurfi á því verulegar breytingar, sérstaklega þær sem opna fyrir möguleika nýrra aðila til að koma inn í greinina og keppa við þá sem eru þar fyrir.

Ég vil aðeins rifja upp söguna af því að hv. þm. Sigurjón Þórðarson fór mikinn í ásökunum í annarra garð um að hafa komið kvótakerfinu á. Þeir sem stóðu að því í upphafi, árið 1983, voru ekki bara þáverandi stjórnarflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, heldur líka öll helstu hagsmunasamtök útgerðarmanna og sjómanna. Kerfinu var komið á vegna atbeina þeirra en ekki manna í þingsölum. Við skulum ekki gleyma því. Einn af þeim sem getur frætt hv. þingmann um þessa sögu er þáverandi formaður Farmanna- og fiskimannasambandsins, Guðjón Arnar Kristjánsson, sem nú er formaður Frjálslynda flokksins og stóð að því ásamt fleirum að biðja um kvótakerfið í upphafi. Ég er ekki að segja það hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni til lasts á einn eða annan hátt. Þetta er bara söguleg staðreynd og hann er fullfær um að skýra hana sjálfur. En hv. þm. Sigurjón Þórðarson þarf að kunna þá sögu líka.

Í öðru lagi held ég að menn megi hafa það í huga að þegar ákveðið var að gera þá breytingu og gera kerfið framseljanlegt þá stóðu fleiri að því en Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn. Það voru líka Borgaraflokkurinn, Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið. Til að klára söguna vil ég minna á að Frjálslyndi flokkurinn hefur sem aðalstefnu í fiskveiðimálum að viðhalda kvótakerfinu. Gleymum því ekki.