132. löggjafarþing — 14. fundur,  3. nóv. 2005.

Kostir og gallar færeyska fiskveiðistjórnarkerfisins.

27. mál
[17:18]
Hlusta

Flm. (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að mörgu leyti komu mjög athyglisverðar athugasemdir fram í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar. Hann talaði um stofnstærðarmælingar og benti þar réttilega á að þessar mælingar eru oft og tíðum, nánast alltaf, háðar mjög mikilli óvissu. Ég þekki sjálfur nokkuð vel til þessara mælinga á loðnu, hef tekið þátt í þeim allnokkrum sinnum, þessum svokölluðu bergmálsmælingum, líka mælingum á síld og öðrum fisktegundum, kenndi þetta meira að segja við Sjávarútvegsháskólann í Tromsö nokkur missiri og skrifaði lokaritgerð til meistaranáms í fiskifræði, einmitt um þessi mál, þ.e. áreiðanleika bergmálsmælinga á uppsjávarfiskum.

Það verður að viðurkennast að þessar mælingar eru háðar ansi mörgum óvissuþáttum en því miður er það yfirleitt svo, og hefur verið þannig á Íslandi um margra ára skeið, að mælingarnar eru túlkaðar eins og heilagur stafur á bók og litið svo á að þær séu hárréttar, sérstaklega þá og kannski fyrst og fremst af hagsmunaaðilum. Mér finnst líka að fiskifræðingar hafi ekki verið nógu duglegir að halda því á lofti að mælingar eru oft og tíðum háðar mikilli óvissu.

Það má benda á það að nýtt rannsóknarskip okkar, Árni Friðriksson, er allt annað og miklu fullkomnara skip með miklu betri búnaði en gömlu skipin, til að mynda er það miklu lágværara. Það heyrist miklu minna í því. Það er margsannað að fiskur heyrir mjög vel í skipum þegar þau nálgast. Þetta stúderaði ég mjög grannt þegar ég gerði lokaverkefnið mitt og ég þykist vita þó nokkuð um einmitt þetta.

Árni Friðriksson nýi er mjög hljóðlátur og það gæti hafa komið fram í því — nú er tími minn senn á þrotum — að núna er miklu auðveldara að ná fram góðri, hárri mælingu á loðnu, jafnvel þótt lítið sé af henni og þótt hún sé stygg, en áður var. Ég veit ekki til þess að menn hafi tekið þetta með í reikninginn. Hins vegar hættu menn allt í einu að nota Árna Friðriksson nýja í togararalli fyrir örfáum missirum, einmitt af því að hann var svo hljóðlátur og fiskaði miklu betur en togararnir sem eru notaðir enn.