132. löggjafarþing — 16. fundur,  7. nóv. 2005.

4. fsp.

[15:33]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. viðskiptaráðherra veit auðvitað sem er, frú forseti, að það hefur verið gripið til aðgerða annars staðar, t.d. í Noregi, sem duga mun betur en það sem lagt er til í þessari skýrslu. Auðvitað veit ég það líka að hæstv. viðskiptaráðherra þarf ekki að taka hverja einustu tillögu úr þessari skýrslu og hún getur líka gert annað og meira.

En það skyldi þó ekki vera, frú forseti, að staða kvenna á íslenskum vinnumarkaði og í stjórnunarstöðum þar sé sú sem hún er vegna þess, eins og segir í skýrslunni, að menn höfðu látið það í ljósi í viðtölum við gagnaöflun fyrir þessa skýrslu, með leyfi forseta, að það: „... væri ekki æskilegt að bátnum væri ruggað og voru konur jafnvel álitnar ógnun við þann stöðugleika sem stjórn hefði mótað í sínu vinnuferli.“

Ja, heyr á endemi. Nú eru íslenskar konur orðnar ógnun við stöðugleikann, líklega þá bæði í efnahagslífi, atvinnulífi og viðskiptalífi. Og hvað ætlar hæstv. viðskiptaráðherra að gera við því?