132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Fyrirhugaðar álversframkvæmdir.

[13:31]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Á einum sólarhring, í gær og í dag, birtust fréttir sem staðfesta að í undirbúningi eru, og meira eða minna á fullri ferð, a.m.k. þrjú risaálversverkefni hér á landi, með meiri og minni þátttöku stjórnvalda sjálfra. Í fyrsta lagi barst frétt um að Umhverfisstofnun hefði úthlutað Alcan starfsleyfi fyrir stækkun álversins í Straumsvík, úr 200 þús. tonna gildandi starfsleyfi og í allt að 460 þús. tonn, þ.e. framleiðsluaukning upp á 260 þús. tonn.

Í öðru lagi bárust fréttir af því að Landsvirkjun, landeigendur og fleiri aðilar á Norðurlandi, hefðu undirritað samninga um orkurannsóknir og undirbúning virkjana í Þingeyjarsýslum þar sem talað er um allt að 600 megavatta afl, 4.600 gígavattstunda framleiðslu á ári sem dugir fyrir meira en 200 þús. tonna framleiðslu.

Í þriðja lagi birtust í blöðum í dag fréttir af undirritun samnings í gær, milli Norðuráls, Reykjanesbæjar og Fjárfestingarstofunnar — sem er hvað? sem er í eigu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins og Útflutningsráðs — um undirbúning álvers í Helguvík, allt að 250 þús. tonn að stærð, sem tekið gæti til starfa jafnvel þegar á árinu 2010. Með öðrum orðum erum við að tala um álframleiðslu upp á milli 700 og 800 þús. tonn, þrjú verkefni sem öll eru í gangi samhliða og gætu, að því er virðist, öll farið af stað samtímis, innan eins til þriggja ára.

Ég ætla að gera eina tilraun enn til að spyrja hæstv. forsætisráðherra Halldór Ásgrímsson, úr því að hann er viðstaddur: Telur ríkisstjórnin að það gangi að hleypa öllum þessum verkefnum fram, jafnvel samtímis og framkvæmdir hefjist á næsta eða þarnæsta ári, miðað við ástandið í hagkerfinu, í efnahagsmálum og atvinnumálum, eins og það blasir við okkur um þessar mundir?