132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vandi á leikskólum vegna manneklu.

[14:04]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg skýr stefna af hálfu menntamálaráðherra að við ætlum okkur að halda áfram að byggja upp fagmennsku í öllu skólakerfinu. Við erum að fara heildstætt yfir alla kennaramenntun í landinu í samvinnu við fagfélög eins og Kennarasambandið og fleiri aðila. Við erum að skoða allt skólakerfið í heild og ekki síst leikskólakennarastörfin. Það þýðir ekkert að koma hingað upp og segja að fjölga þurfi leikskólakennaramenntuðu fólki því við erum að gera það. Við erum að fjölga því sem nemur hundruðum á næstu árum. Því hefur fjölgað um 1.260 á síðustu 15 árum og á næstu árum mun leikskólakennurum fjölga sem nemur a.m.k. 450 manns.

Það eru fleiri leikskólakennaramenntaðir einstaklingar úti í samfélaginu en þeir sem eru starfandi á leikskólunum. Ekki er því hægt að segja að það vanti leikskólakennaramenntað fólk því það er fleira úti á markaðnum en til staðar á leikskólunum sjálfum. Því þýðir ekki fyrir stjórnarandstöðuna að koma hér upp og fela sig eins og alltaf á bak við það að tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga sé ójöfn. Það er ekki hægt að koma og segja ævinlega pass í þessum málum. Auðvitað snertir þetta sveitarfélögin. Það er þeirra að skapa starfsumhverfi fyrir það mikilvæga skólastig sem leikskólinn er. (Gripið fram í.) Ríkisvaldið stendur sig hvað varðar faglegu hliðina, við útskrifum nægilega marga leikskólakennara. Við munum halda áfram að efla leikskólakennaramenntun í landinu en það er sveitarfélaganna að sjá til þess að fólk með fagkunnáttu starfi á leikskólunum og til þess að svo verði þurfa launakjörin að vera meira aðlaðandi en þau eru í dag. Boltinn er á hendi sveitarfélaganna hvað það varðar, það er ekki á hendi ríkisins að leysa það mál. Við látum ekki okkar eftir liggja varðandi uppbyggingu á leikskólakennaramenntun, það er alveg á hreinu.