132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vegagerð um Stórasand.

43. mál
[16:09]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú er það svo að ég get ekki skilið viðbrögð hv. þingmanns öðruvísi en svo að hann sé andvígur því að byggja upp veginn norður Kjöl eða suður Kjöl eins og nú standa sakir, það sé verkefni sem menn geti hugsað sér einhvern tíma löngu síðar og það er alveg heiðarleg og góð afstaða. Að hugsa sér að Kjölur verði ekki ekinn nema að sumri til, alveg heiðarleg afstaða og ég hef ekkert við það að athuga.

Á hinn bóginn svaraði hv. þingmaður ekki þeirri spurningu minni hvort hann telji eðlilegt að vegur sé lagður frá Kili sunnan Blöndulóns niður í Skagafjörð. Nú er það svo að þeir sem búa frammi í Lýtingsstaðahreppi telja þetta mikið hagsmunamál fyrir sig. Þá má velta fyrir sér hvort hv. þingmaður vilji andartak taka þennan tillöguflutning alvarlega þegar hann horfir til þeirra hagsmuna sem umbjóðendur hans í uppsveitum Skagafjarðar hafa. Það er ekki alltaf hægt að drepa öllum málum á dreif eins og hv. þm. Helgi Hjörvar gerði áðan, misskilja allt eða mistúlka, en auðvitað er ekki hægt að gera annað þegar menn setja sig ekki inn í málin.